Innlent

Mega ekki leika sér með bolta í leikfimi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
76 íbúar voru í Grímsey árið 2012 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
76 íbúar voru í Grímsey árið 2012 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
Formaður hverfisráðs Grímseyjar segir erfitt fyrir fjölskyldufólk að ferðast á milli lands og eyjar vegna síhækkandi fargjalda í flug og ferju. Þetta kemur fram í Bændablaðinu í dag.

Dýrustu fargjöldin eru um 14 þúsund krónur en algengt verð er 9-12 þúsund krónur.

„Og það sér hver maður hver útgjöldin verða þurfi fjögurra manna fjölskylda að bregða sér í land," segir Jóhannes Henningsson formaður hverfisráðs Grímseyjar. Hann segir að eðlilegt væri að íbúar í Grímsey nytu betri kjara en aðrir í ferju og flug.

Hverfisráð Grímseyjar vill útbúa íþróttaaðstöðu í eynni við sundlaugina. Enginn aðgangur sé fyrir og bagalegt að kenna þurfi skólabörnum íþróttir í samkomusal þar sem ekki megi leika sér með bolta.

Þá er vakin athygli á því að ýmislegt sé úr sér gengið í Grunnskólanum í Grímsey. Börnin hafi til að mynda sjálf staðið straum af tækjataukum til skólans en þau söfnuðu 140 þúsund krónum svo hægt væri að kaupa skjávarpa í aðra af kennslustofum skólans. Tölvuborð eru sögð meira eða minna ónýt auk þess sem töflur í kennslustofum séu gamlar. Þær hafi raunar verið sendar út í eynna þegar líftíma þerra í grunnskólum Akureyrarbæjar lauk.

Nýjasta eintak Bændablaðsins kom út í dag. Hægt er að nálgast það heimasíðu þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×