Enski boltinn

Alan Shearer spáir Chelsea titlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer varð enskur meistari með Blackburn.
Alan Shearer varð enskur meistari með Blackburn. Mynd/AFP
Alan Shearer, markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta frá upphafi, hefur mikla trú á endurkomu Jose Mourinho í enska boltann en Mourinho er tekinn við liði Chelsea á nýjan leik.

„Mourinho er gulltryggður. Hann veit um hvað enska úrvalsdeildin snýst og hann veit hvernig á að vinna þessa deild. Hann veit hvað hans lið þarf að gera til að verða meistari og því hef ég mesta trú á Chelsea-liðinu núna," sagði Alan Shearer við BBC Sport.

Jose Mourinho gerði Chelsea að enskum meisturum á tveimur fyrstu tímabilum sínum í ensku úrvalsdeildinni (2004-05 og 2005-06) og þá hafði félagið ekki unnið titilinn í hálf öld.

„Ég elska hvernig hann vinnur, hann er frábær í fjölmiðlum og árangurinn talar sínu máli þótt að síðasta tímabilið hans hjá Real Madrid hafi ekki verið það besta hjá honum," sagði Alan Shearer.

„Þegar stjóri hefur átt svona feril þá er alveg hægt að fyrirgefa honum fyrir eitt slakt tímabil. Hann nær alltaf því besta út úr sínum leikmönnum og nær góðu sambandi við þá. Hann passar upp á sína leikmenn og ver þá fyrir gagnrýni. Leikmennirnir kunna vel við það, virða það og eru tilbúnir að berjast fyrir hann," sagði Shearer.

Alan Shearer skoraði 260 mörk í 441 leikjum í ensku úrvalsdeildinni frá 1992 til 2006 en hann lék með Blackburn Rovers og Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×