Lífið

Hulli í Sjónvarpið

Sara McMahon skrifar
Hugleikur Dagsson og Anna Svava Knútsdóttir semja handritið að þáttunum um Hulla ásamt Þormóði Dagssyni. Mynd/Vilhelm
Hugleikur Dagsson og Anna Svava Knútsdóttir semja handritið að þáttunum um Hulla ásamt Þormóði Dagssyni. Mynd/Vilhelm
"Við erum hálfnuð með þáttaröðina. Þættirnir mjakast úr okkur þessa dagana og við reynum að láta þetta líta eins vel út og við getum þó stíllinn eigi að haldast hrár," segir listamaðurinn Hugleikur Dagsson, sem vinnur nú hörðum höndum að gerð teiknimyndaþáttaraðar. Þættirnir fjalla um líf listamannsins og verða sýndir í Sjónvarpinu í haust.

Þættirnir heita Hulli og handritið skrifaði Hugleikur ásamt bróður sínum, Þormóði Dagssyni, og Önnu Svövu Knútsdóttur. Hönnun fígúranna var í höndum Lóu Hjálmtýsdóttur sem býr yfir nægilega skemmtilegri mannfyrirlitningu að sögn Hugleiks. "Ég tek hennar teikningar og geri þær að mínum. Það bjargaði mér að þurfa ekki að skapa persónurnar sjálfur, það fer svo mikil sköpunarorka í að ákveða hvernig fólk er klætt."

Hann segir samstarfið við Önnu Svövu og Þormóð einnig hafa gengið vel, en persóna Þormóðs leikur veigamikið hlutverk í þáttunum. "Hann er litla, veika hjartað í þáttunum," segir hann og bætir við: "Hans persóna er ekki jafn mikið fífl og persóna mín."

Hugleikur kveðst stoltur af þáttunum og útilokar ekki gerð framhaldsþáttaraðar. "Ég væri alveg til í að leggja í aðra seríu. Ég er mjög stoltur af því sem við höfum skapað og ég er viss um að önnur þáttaröðin yrði betri en sú fyrsta. Þáttaröð tvö er alltaf betri en eitt þegar kemur að sjónvarpsþáttum," segir hann lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.