Myndirnar af Balachandran Prabhakaran, syni Velupillai Prabhakaran foringja uppreisnarsveita Tamíl Tígra, voru teknar í maí 2009. Þá hafði ríkisstjórnin á Sri Lanka hrundið uppreisn Tígranna á bak aftur og um leið bundið endi á borgarastyrjöld sem staðið hafði í 26 ár.
Fyrri myndirnar tvær, hér að ofan og neðan, sýna drenginn í gæslu yfirvalda þar sem hann situr með teppi yfir axlir sínar og gæðir sér á einhverju matarkyns.

Myndirnar verða sýndar í heimildarmyndinni No Fire Zone sem frumsýnd verður á Mannréttindakvikmyndahátíð í Genf í næsta mánuði samhliða fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.
Stjórnvöld á Sri Lanka hafa ávallt haldið því fram að hinn tólf ára gamli Balachandran hafi látið lífið í skotbardaga. Callum Macrae, leikstjóri kvikmyndarinnar, segir þá staðhæfingu ekki geta átt við rök að styðjast.
„Sú staðreynd að aftakan var fest á filmu og myndirnar geymdar til minningar um sigur í stríðinu gerir þetta enn óþægilegra," segir Macrae við Independent.

Brigadier Wanigasooriy, talsmaður hersins á Sri Lanka, segir ýmist um lygar, hálfsannleik eða orðróm að ræða. Hermenn voru sakaðir um brot á mannréttindum á síðustu dögum styrjaldarinnar. Var talið að kynferðisglæpir, morð og hvers slags misþyrmingar hefðu átt sér stað.
„Engin sönnunargögn liggja fyrir sem gefa ástæðu til rannsóknar," segir Wanigasooriy. Ban Ki-Moon, ritari Sameinuðu þjóðanna, birti skýrslu árið 2011 þar sem fram kom að allt að 40 þúsund manns hefðu látist á síðustu mánuðum styrjaldarinnar.
