Skoðun

Það þarf heilt þorp

Matthías Freyr Matthíasson skrifar
Fyrirsögnin á þessari grein er fengin úr ensku og hafa flestir heyrt hana, „It takes a village“, en með henni er átt við það að það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Ég ritaði grein er birtist á visir.is og í Fréttablaðinu þann 21. desember síðastliðinn um einelti. Greinin og viðbrögðin við henni sem ég fékk, símleiðis og í gegnum Facebook, hvöttu mig til umhugsunar um málefnið og í kjölfarið setti ég mér það markmið að árið 2013 yrði tileinkað aukinni umræðu um einelti. Umræðu sem vonandi myndi leiða til þjóðfélagsumræðna um meinsemd eineltis og hversu alvarlegar afleiðingarnar geta orðið fyrir þolendur eineltis. Ég á 5 ára gamla dóttur og ég horfi til þess hvers konar manneskja ég vil að hún sé. Ég tel mig einnig vita það að flestir foreldrar vilji börnum sínum vel, vilji að börnin þeirra verði góðar og gildar manneskjur í samfélaginu. Nái árangri í því sem þau taka sér fyrir hendur. En það er ekki nóg að horfa til þess hvernig við sem foreldrar og/eða uppalendur ölum börnin okkar upp, því að þau verða fyrir áhrifum alls staðar frá og sérstaklega í nútímasamfélagi þar sem netið og tæknin eru svo stór þáttur í lífi okkar flestra. Tvöföld skilaboð Þegar börnin heyra foreldra sína ræða saman á neikvæðan hátt um heimilisaðstæður samnemenda, foreldra samnemenda eða um samkynhneigð o.s.frv. tekur barnið það með sér út í daglegt líf. Þegar barn verður vitni að því að fullorðinn einstaklingur lætur frá sér neikvæð (og allt að andstyggileg) ummæli á kommentakerfum fjölmiðlanna tekur barnið það með sér út í sitt daglega líf. Ef barn heyrir niðrandi orð um einstakling tekur barnið það með sér út í sitt daglega líf. Þegar barn sér fjölmiðla hampa glæpamönnum sem einhvers konar and-hetjum tekur barnið það með sér út í hið daglega líf. Þegar barn heyrir alþingismann kalla einhvern bjána tekur barnið það með sér út í hið daglega líf. Þá skiptir engu máli hversu vel haldið er utan um barnið á heimavelli ef það fær endurtekið í sífellu tvöföld skilaboð frá þjóðfélaginu. Að það sé í lagi að tala illa um einhvern, hver sem hann er. Ég hef þó ekki lausnirnar við því hvernig við útrýmum einelti, hvort sem um er að ræða í skólum eða á vinnustöðum. Ég er þó viss um það í hjarta mínu að við sem þjóðfélag verðum að átta okkur á því að við ölum börnin okkar upp í sameiningu. Ekki undir neinum kringumstæðum megum við sópa einelti undir teppið sem „lítilvægu“ vandamáli. Við þurfum að horfast í augu við hvernig orðræðan hefur verið að þróast síðustu ár. Sú þróun leiðir ekki til neins nema vandræða. Fyrsta skrefið sem við verðum að taka til þess að bregðast við því vandamáli sem einelti er, er að hugsa um það hvers konar þjóðfélag og einstaklinga við viljum sjá og vera í framtíðinni.



Skoðun

Sjá meira


×