Skoðun

Grunnur að sanngjörnu fiskveiðistjórnunarkerfi

Friðrik Hansen Guðmundsson skrifar
Ein af þeim hagsmunaklíkum sem hafa arðrænt íslenskt samfélag í áratugi eru eigendur fiskveiðikvóta, en þeir fengu á sínum tíma gefins fiskveiðikvóta út á það að hafa á þeim tíma verið með veiddan afla. Þessir aðilar segja í dag að 90% af aflaheimildum hafi skipt um eigendur og ef þær væru innkallaðar í dag, væri verið að hegna röngum aðilum sem hafi keypt og greitt fyrir sínar aflaheimildir. Þetta er rangt því stór hluti af kvótanum er í dag hjá sömu aðilum undir nýjum kennitölum.

Margir í þessari hagsmunaklíku spiluðu með arðinn af gjafakvótanum í íslensku og erlendu fjármálalífi og fengu síðan þegar illa fór, niðurfelldar gríðarlega skuldir og eru áfram með sín fyrirtæki í rekstri. Rök stjórnvalda voru að farsælla væri að halda þekkingu þessara aðila inni í fyrirtækjunum, en á sama tíma var ekki hægt að gera sömu hluti fyrir önnur íslensk fyrirtæki eða íslensk heimili.

Eitthvað hefur stórlega misfarist við stjórnun fiskveiða á þeim 28 árum sem liðin eru frá innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Endurskoða þarf vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar og komast að því hvers vegna svona illa gengur að byggja upp fiskistofna við landið og ekki hefur verið hægt að vernda uppeldisstöðvar sjávarfiska og laxfiska (sjóbirtings og bleikju) meðan þeir dvelja í sjó.

Samkvæmt núverandi kvótakerfi er hið raunverulega eignarhald á íslensku fiskveiðiauðlindinni í höndum erlendra lánadrottna sem hirða mikinn arð af nýtingu hennar. Afleiðing núverandi kvótakerfis með framsali og sölu aflaheimilda er á þann veg að auðlindin er og verður alltaf gríðarlega skuldsett. Áætlaðar skuldir sem nú hvíla á fiskveiðiauðlindinni eru 500 til 900 milljarðar og vaxtagreiðslur af þessum skuldum eru 50 til 100 milljarðar á ári. Aflaverðmæti upp úr sjó eru um 170 milljarðar og það þjónar ekki hagsmunum þjóðarinnar að stjórn auðlindarinnar skuli vera með þeim hætti að allur afrakstur af henni fari í fjármagnskostnað sem endi í höndum erlendra fjármálastofnana. Með breyttu fyrirkomulagi gætu þær fjárhæðir sem nú fara í fjármagnskostnað, farið í sameiginlega sjóði landsmanna í stað þess að flæða úr landi.

Breyta þarf lögum um kvótakerfið með það að markmiði að arðurinn af auðlindinni hætti að renna til erlendra fjármálastofnana og verði í þess stað arðgefandi atvinnuvegur til hagsmuna fyrir þjóðarheild. Aflaheimildir ætti að innkalla á einu kjörtímabili og setja í auðlindasjóð landsmanna og leigja síðan út til mest 5-10 ára með uppboðsfyrirkomulagi. Fyrstu árin yrði leigugjaldið nýtt til að greiða skaðabætur til þeirra sem með sannanlegum hætti hafi stofnað til skulda vegna kvótakaupa. Þetta þarf að gera:

Ÿ Allar veiðiheimildir fari á uppboðsmarkaði og verði aldrei úthlutað til lengri tíma en 5 ára í senn.

Ÿ Allar veiðiheimildir skulu greiddar um leið og þær eru nýttar.

Ÿ Öllum fiski skal landað á fiskmarkaði á Íslandi og hann boðinn hæstbjóðanda.

Með nýju borgaralegu stjórnmálaafli undir formerkjum „Liberal Democrats“ væri hægt að leggja grunn að miklum breytingum í nýtingu aflaveiðiheimilda og láta sanngjarnan arð af þeim renna til samfélagsins. Klíku- og hagsmunahópar í íslenskri hagsmunapólitík hafa í áratugi sagt okkur að þetta sé ekki hægt eða lofað að breyta þessu og ekkert gert. Það er því ljóst að útbrunnir stjórnmálaflokkar, hagsmunatengdir stjórnmálamenn eða þriðja kynslóð stefnulausra stjórnmálamanna á egósiglingu geta ekki gert þetta og eina leiðin til að þetta geti orðið er að koma til áhrifa nýju borgaralegu stjórnmálafli sem vinnur af alvöru fyrir almenning og þorir að taka á málum.




Skoðun

Sjá meira


×