Erlent

Sekt fyrir að blóta opinberlega

BL skrifar
Frá bænum Middleborough í Bandaríkjunum.
Frá bænum Middleborough í Bandaríkjunum.
Íbúar í bænum Middleborough í Bandaríkjunum þurfa að greiða um 2500 króna sekt ef þeir blóta á opinberum vettvangi. „Við erum mjög ánægð með þetta," segir búðareigandi.

Það var lögreglustjórinn í bænum, sem er í grennd við borgina Boston, sem fór fram á að þessi lög yrðu sett á. Kosið var um málið og voru niðurstöður úr kosningunni birtar í dag. Þar kom fram að 183 íbúar greiddu atkvæði með tillögu lögreglustjórans en 50 voru á móti. Kosningaþátttakan var ekki upp á marga fiska, því um 20 þúsund manns búa í bænum.

Bæjaryfirvöld segja að tillagan nái ekki til einkasamtala fólks heldur eigi hún að koma í veg fyrir að unglingar hætti að blóta í miðbænum og á opinberum stöðum. En þau eigi það til að kalla á hvort annað úr fjarlægð með blótsyrðum.

Mimi Duphily, búðareigandi, segir að blótið í unglingum verði til þess að viðskiptavinum sínum líði óþægilega.

Lögfróðir menn hafa sett spurningamerki við sektina, hún brjóti í bága við tjáningarfrelsi fólks. En samkvæmt lögum í ríkinu er bæjum heimilt að setja sín eigin lög.

Sektin hljóðar upp á 20 dollara, eða rúmlega 2500 krónur, sem er djöfulli mikill peningur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×