Erlent

Vetrarhörkur framundan á Norðurlöndunum

Síberíukuldinn sem hrjáð hefur íbúa í mið- og austurhluta Evrópu mun valda miklum vetrarhörkum á Norðurlöndunum á næstu dögum.

Ástæðan fyrir þessum kuldum er óvenjukraftmikil og stöðug hæð sem liggur á mörkum Finnlands og Rússlands. Þessi hæð er ekkert á förum að minnsta kosti næstu tvær vikurnar að sögn veðurfræðinga.

Í dönskum fjölmiðlum er byrjað að vara almenning við miklum kuldum sem framundan eru en reiknað er með að frostið fari niður fyrir 15 gráður um helgina í Kaupmannahöfn. Í Helsinki höfuðborg Finnlands er 25 gráðu frost og í Minsk í Hvítarússlandi er 20 gráðu frost.

Þessi Síberíukuldi hefur þegar valdið töluverðu manntjóni í mið- og austurhluta Evrópu og hafa að minnsta kosti 60 manns látist af völdum hans. Að mestu er um útigangsfólk að ræða. Yfir 500 manns hafa leitað sér aðstoðar vegna kalsára og ofkælingar.

Einn verst er ástandið í Búlgaríu þar sem neyðarástand ríkir í 25 af 28 héruðum landsins. Frostið hefur mælst 30 gráður á daginn víða í landinu. Sömu sögu er að segja í Póllandi, Úkraníu og fleiri löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×