Erlent

Ekki meirihluti fyrir kannabisræktuninni

Heimilt er að rækta lítilræði af maríjúana til einkanota á Spáni, en óvíst hvernig áform smábæjar um að rækta og selja eiturlyfið hefði fallið að þeim lögum.
Heimilt er að rækta lítilræði af maríjúana til einkanota á Spáni, en óvíst hvernig áform smábæjar um að rækta og selja eiturlyfið hefði fallið að þeim lögum. Nordicphotos/AFP
Ekki var nægur stuðningur við áform bæjarstjórnar í spænskum smábæ fyrir því að hefja stórfellda ræktun á kannabisi í íbúakosningum. Um 56 prósent studdu ræktunina, en 75 prósent hefðu þurft að vera henni samþykk til að hún yrði að veruleika, samkvæmt frétt BBC.

Um 960 búa í bænum Rasquera í Katalóníu, og hafa bæjarbúar hingað til lifað á ræktun vínberja og ólífa. Bæjarfélagið er fremur skuldsett eftir ágjöf síðustu ára, og duttu stjórnendur bæjarins niður á frumlega leið til að afla bænum tekna.

Þeir lögðu til að bærinn legði land undir kannabisræktun, en á Spáni er heimilt að rækta lítilræði af maríjúana til einkanota. Bæjarfulltrúarnir töldu öruggt að ræktun á talsverðu magni af fíkniefninu væri heimiluð með þessum lagaákvæðum.

Stjórnvöld á Spáni voru á annarri skoðun, og hótuðu bæjaryfirvöldum að fara með málið fyrir dómstóla ef bærinn gerði alvöru úr þessum áformum.

Þótt meirihluti þeirra sem þátt tóku í íbúakosningunni hafi verið hlynntir því að rækta kannabis óttaðist stór hluti bæjarbúa að lögfræðikostnaður gæti sligað bæjarsjóð, sem þegar stendur tæpt. Ekkert verður því af því að þorpið beiti þessari frumlegu aðferð til að afla tekna, í bili að minnsta kosti.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×