Erlent

Mótmæla tónleikum poppdrottningar: Farðu til helvítis Lady Gaga

Frá mótmælunum í Indónesíu.
Frá mótmælunum í Indónesíu. Mynd Ap
Tónlistarkonan Lady Gaga tilkynnti í gær að hún þyrfti að aflýsa fyrirhuguðum tónleikum í Jakarta í Indónesíu vegna hótana þar í landi. Poppdrottningin er vægast sagt umdeild í landinu og voru meðal annars haldin fjölmenn mótmæli vegna komu hennar til landsins. Á skiltunum stóð meðal annars „Segið nei við Lady Satan Gaga“ og „Móðir, skrímsli, farðu til helvítis“.

Mótmælendur, sem voru íslamskir, eru mótfallnir viðhorfum tónlistarkonunnar, meðal annars til samkynhneigðar. Þá finnst mótmælendum einnig sýning Lady Gaga með of miklum kynferðislegum blæ og að hún spilli æsku landsins með dónalegum tilburðum sínum.

Lady Gaga ætlaði að hunsa mótmælendur og halda tónleikana þrátt fyrir óánægju. Það var þó snarlega hætt við það eftir að hótanir bárust um að mótmælendur hygðust brenna sviðið sem til stóð að Gaga myndir flytja tónlist sína á, auk þess sem mótmælendur ætluðu að koma í veg fyrir að hún kæmist frá flugvellinum á tónleikana.

Alls seldust 52 þúsund miðar á tónleika söngkonunnar sem hefðu verið þeir fjölmennustu á tónleikaferð hennar um Asíu. Þá þótti líklegt að mótmælendur hefðu keypt miða á tónleikana til þess eins að valda usla.

Tónlistarkonan bað aðdáendur sína afsökunar i Indónesíu vegna þess að hún þyrfti að aflýsa tónleikunum. Hún lofaði einnig að allt yrði reynt svo hún gæti haldið sérstaka tónleika fyrir aðdáendur sína.

Lady Gaga skrifaði svo á Twitter síðu sína í dag að það væri ekkert heilagt við hatur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×