Lífið

Baltasar Breki löngu smitaður af leiklistarbakteríunni

Baltasar Breki Samper hefur aldrei hlakkað jafn mikið til að byrja í skólanum en hann er einn af tíu sem komust inn í hið eftirsótta leikaranám hjá Listaháskólanum í vikunni.
Baltasar Breki Samper hefur aldrei hlakkað jafn mikið til að byrja í skólanum en hann er einn af tíu sem komust inn í hið eftirsótta leikaranám hjá Listaháskólanum í vikunni. Fréttablaðið/hag
„Þetta er mikið spennufall enda búið að vera langt og strangt ferli,“ segir Baltasar Breki Samper sem komst inn í hið eftirsótta leikaranám hjá Listaháskóla Íslands og hefur nám næstkomandi haust.

Tíu manna hópur upprennandi leikara var valinn í byrjun vikunnar eftir inntökuferli sem hefur staðið yfir síðan í byrjun janúar en yfir 170 umsóknir bárust skólanum. Baltasar segir inntökuprófin miklu skemmtilegri en hann bjóst við.

„Þarna voru margir hæfileikaríkir krakkar og það hlýtur að hafa verið ansi erfitt að velja á milli enda fannst mér allir eiga fullt erindi í þetta nám,“ segir Baltasar en ásamt honum komust þau Albert Halldórsson, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, Eysteinn Sigurðarson, Kjartan Darri Kristjánsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir, Ólafur Ásgeirsson, Vala Kristín Eiríksdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir inn.

Þegar Fréttablaðið náði tali af Baltasar var hann í matarhléi í vinnunni en hann vinnur sem sviðsmaður hjá Þjóðleikhúsinu.

„Ég byrjaði að vinna í haust í Þjóðleikhúsinu og núna erum við að æfa Vesalingana sem er risa uppsetning og mikið fjör.“

Baltasar Breki er sonur leikstjórans og leikarans Baltasars Kormáks og viðurkennir að hann hafi þegið ráðleggingar frá föður sínum fyrir prufurnar.

„Ég er löngu smitaður af leiklistarbakteríunni og get ekki valið á milli hvíta tjaldsins eða leikhússins. Hvort tveggja er jafn spennandi en ég hef unnið mikið með pabba þegar hann hefur verið að taka upp myndir hérna heima og það er heillandi heimur,“ segir Baltasar og bætir við að hann hafi aldrei hlakkað jafn mikið til að byrja í skólanum eins og núna.

„Þetta er skrýtin tilfinning sem ég hef ekki upplifað áður, get hreinlega ekki beðið eftir haustinu.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.