Skoðun

Jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðun

Grétar Mar Jónsson skrifar
Mikil umræða er nú um frumvarp um fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum. Mitt mat er að það frumvarp sem nú liggur fyrir um breytingar á lögunum komi ekki til með að stuðla að jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðun þegar kemur að nýtingu sjávarauðlindarinnar. Jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðun getur ekki orðið þegar aðeins á að setja 5% af heildarkvóta á Íslandsmiðum - sem er ca. 400.000 þorskígildistonn - í potta.

Einnig er vert að hafa í huga þegar horft ert til jafnræðis, atvinnufrelsis og nýliðunar í tengslum við fyrirhugaðar breytingar að megnið af þeim aflaheimildum sem eru nú þegar í pottunum og aukningin samkvæmt frumvarpsdrögunum verða nýtt af núverandi handhöfum kvótans. Það er vegna þess að byggðakvótann geta þeir einir nýtt sem eiga veiðiheimildir fyrir vegna reglunnar um tonn á móti tonni. Þ.e.a.s. útgerðarmaður þarf sjálfur að eiga eitt tonn til að setja á móti tonni af byggðakvóta. Línuívilnun fá þeir einir sem eiga kvóta. Varðandi strandveiðarnar er það þannig að helminginn af þeim kvóta sem er í strandveiðipotti veiða þeir sem eiga kvóta fyrir, en hafa veitt hann fyrir 1. maí.

Þetta gerir það að verkum að það má ætla að það verði aðeins 2% af heildarkvótanum á Íslandsmiðum sem ætlað er að uppfylla jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, atvinnufrelsi, nýliðun og álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í staðinn fyrir þessa pínulitu skerðingu á heimildum fá hins vegar núverandi handhafar kvótans nýtingarréttarsamning til 20 ára sem er endurnýjanlegur með 15 ára uppsagnarfresti.

Varðandi breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er mikilvægt að tryggja samkeppnisstöðu fiskvinnslu án útgerðar þannig að allur fiskur verði seldur í gegnum fiskmarkaði. Einnig er mikilvægt að aðskilja veiðar og vinnslu.

Fjórflokkurinn virðist ekki geta né hafa vilja til að tryggja jafnræði og mannréttindi hér á landi. Það er því aðeins ein leið sem hægt er að fara til að knýja fram breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og það er þjóðaratkvæðagreiðsla um aflamarkskerfi eða dagakerfi.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×