Skoðun

Hugleiðing heimilislæknis

Salóme Ásta Arnardóttir skrifar
Enn á ný berst heimilislæknaskortur í tal í fjölmiðlum. Fyrir skömmu kom yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans fram í sjónvarpi og sagði frá því að fólk kynni ekki að leita sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu og kæmi því óþarflega oft á bráðamóttöku með sín veikindi, slys og áhyggjur af heilsu, vandamál sem annars ættu heima í heilsugæslunni sem er undirmönnuð og þreytt. Heimilislæknum fer ört fækkandi þó verkefnin séu næg, því að þótt þjóðin hafi aldrei verið hraustari þá höfum við heldur aldrei verið óöruggari um heilsu okkar og þegar áhyggjur gera vart við sig þá er nauðsynlegt að eiga einhvern að til að viðra áhyggjur sínar við og leita ráða hjá.

Iona Heath, formaður breska heimilislæknafélagsins, hélt ræðu á degi William Harveys í október 2011. Þar gerði hún að umtalsefni meðal annars áhrif atburða og ævisögu á sjúkdóma einstaklinga, það sem Linn Getz hefur verið óþreytandi í að miðla okkur Íslendingum undanfarin ár, m.a. á læknadögum í vetur í fyrirlestrinum ?Máttur tengsla. Áhrif lífsreynslu á heilsufar?. Allir læknar hafa reynslu af því hvernig lífið fer með fólk. Ofbeldi, slys og langvinn streita skaða líkama og sál. Áföll á barnsaldri, svo sem líkamlegt, tilfinningalegt eða kynferðislegt áreiti/ofbeldi og fleira það sem vekur þá hugsun að lífið hafi svikið eða farið ranga braut, auka hættu á alvarlegum veikindum og dauða fyrr en ella. Fátækt, misskipting auðs og kynþáttahatur hafa líka áhrif á líkamlega heilsu fólks og einnig þeir dómar heilbrigðiskerfisins sem sjúkdómsgreiningar eru. Mikið hlakka ég til þegar hægt verður að setja inn í reiknilíkani áhættuþátta á www.hjarta.is hjartasár fólks, niðurlægingu og vonbrigði, þá væri kannski mark á takandi. Í ljósi tengsla áfalla og veikinda ættum við að leggja af gamaldags viðhorf um sekt og sjúkdóma. Í samræmi við heimsýn okkar um himin og helvíti hefur heilbrigðisvísindum fyrri ára tekist að leiða almenningi fyrir sjónir að sjúkdómar og heilsubrestir séu refsing fyrir syndsamlegt líferni. Við boðum að með líferni sem lágmarkar áhættuþætti sjúkdóma fleytum við lífinu í átt að ódauðleikanum. En það er ekki sanngjarn boðskapur?

Sérgrein heimilislækninga er eitt af mörgu sem stórveldinu Bretlandi hefur tekist að miðla heimsbyggðinni. Tveir hópar lækna með sömu grunnmenntun eru þar grundvöllur heilbrigðiskerfisins, annar hópurinn tekur að sér þjónustu við ákveðinn hóp fólks en hinn hópurinn tekur að sér sérhæfða þjónustu við sjúkdómaflokka. Þessar tvær nálganir læknisþjónustu bæta hvor aðra upp og getur hvorug án hinnar verið. Sérgreinalæknar og háskólasamfélagið hafa byggt upp stórkostlega þekkingu á sjúkdómum, tilurð þeirra, flokkun og meðferð og heimilislæknar og þeirra fræðasamfélag njóta góðs af sambandi sínu við fólk yfir langan tíma.

Í vel starfandi heilsugæslu sjáum við sjúkdóma ekki sem stöðugt fyrirbæri heldur fylgjumst með fólki frá því áður en sjúkdómurinn heitir nafni og er varla einkenni, kannski smá brot í sálinni í lífsins ólgusjó. Og við sjáum líka hvernig veikindi verða hluti af lífi fólks og samfélags, krefjast síns pláss og hafa áhrif á sögu þeirra sem tengjast fjölskyldu- og tilfinningaböndum. Við fáum jafnvel stundum að fylgjast með samhengi milli kynslóða. Heyrum af langömmu sem leitaði gæfunnar á mölinni, sveitarómagi með króga upp á arminn. Síðar hvernig vonbrigði og vonleysi kenndi dóttur hennar æðruleysi sem jaðrar við tómlæti gagnvart lífinu. Við fylgjumst árum saman með þessari lítillátu fjölskyldu, þar sem fæstir hafa framfæri sitt af vinnu, langömmubörnin sem fá sjúkdómsgreiningar nútímans og meðhöndlun við eirðarleysi í skólanum, en foreldrarnir fá greiningar á æðasjúkdómum, sem venjulega kallast ellimörk, fyrir fertugt svo tekið sé dæmi úr mínu ?samlagi?.

Ég var nefnilega svo lánsöm að taka við samlagi. Hóp fólks sem var tengt sínum lækni. Frá lækni sem hafði byggt upp traust og tengsl við sinn hóp og var að auki í samfélagi samstarfsfólks á sinni heilsugæslu. Svona tengsl sem gera það mögulegt að kynnast fólkinu sínu þannig að þegar áföll og veikindin gera vart við sig geta læknir og skjólstæðingur velt fyrir sér ástæðum og þýðingu veikindanna með tengingu í lífshlaup viðkomandi auk þess að koma á samstarfi um greiningu og meðferð, gefið veikindum meiningu í lífinu. Tengsl fólks við sinn heimilislækni verður sumpart ekki metið til fjár, en þó hefur verið reiknað út að heilbrigðiskerfi sem byggir á heilsugæslu og heimilislækningum gefur betri árangur og borgar sig fjárhagslega til framtíðar.

Ég á mér þann draum að hver einasti Íslendingur geti í framtíðinni sagt hver hans heimilislæknir sé.

Heimild: Heath, I. (2011). Divided we fall. Royal College of Physicians, 18. oktober 2011, sótt 4. desember 2011 af http://www.rcplondon.ac.uk/sites/default/files/harveian-oration-2011-web-navigable.pdf




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×