Skoðun

Er reglugerðin tilbúin?

Aðalsteinn Snorrason skrifar
Talsverðar umræður hafa átt sér stað upp á síðkastið vegna nýrrar byggingarreglugerðar. Mikil vinna hefur verið lögð í verkefnið og er hún langt komin en engan veginn lokið. Að skrifa nýja byggingarreglugerð af þeim metnaði sem hér er að finna er mikið og þarft verk og gerir miklar kröfur til þeirra er að málinu standa. Sem betur fer hafa hæfir menn valist til verksins og er mikið og gott starf í gangi. Það sem hins vegar skortir á er að mönnum sé gefinn nægur tími til að klára viðfangsefnið því mikil ábyrgð fylgir því að innleiða nýjungar á þessu sviði.

Ný byggingalög tóku gildi þann 1. janúar 2011, „Lög um mannvirki, nr. 160 28. desember 2010“. Reglugerðin til að framfylgja lögunum var hins vegar óunnin og tók ný byggingarreglugerð gildi þann 8. febrúar 2012, „Byggingarreglugerð nr. 112/2012“. Útfærsla reglugerðarinnar byggir á leiðbeiningarblöðum Mannvirkjastofnunar og enda fjölmargar greinar reglugerðarinnar á orðunum „Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar“. Leiðbeiningarblöðin til að framfylgja reglugerðinni þurfa alls að vera 120 og þegar er búið að gefa út 50 þeirra. Að lokum þarf að lesa saman reglugerðargögnin og eyða ósamræmi sem kann að hafa komið upp milli hinna mismunandi ákvæða í reglugerðinni og leiðbeininga vegna þeirra. Af þessum sökum er bráðabirgðaákvæði í gildi sem gefur kost á að miða við ákvæði eldri reglugerðar og rennur það út um næstu áramót.

Staða reglugerðarinnar

Föstudaginn 23. nóvember var haldinn fundur á Grand Hóteli undir yfirskriftinni „Samstarf lykill að árangri“ og verður það ekki dregið í efa. Frummælendur voru þeir Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins, Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, Jóhannes Þórðarson, arkitekt FAÍ, og Magnús Sædal, formaður félags byggingafulltrúa og fyrrverandi byggingafulltrúi í Reykjavík. Skemmst er frá því að segja að ekki var annað að sjá en að enn ættu menn langt í land með að klára þá miklu og góðu vinnu sem hér er í gangi. Verður vart annað séð en að ósk Samtaka iðnaðarins og annarra sem eiga hagsmuni af framgangi byggingariðnaðarins um framlengingu á bráðabirgðaákvæði sem gefur kost á að byggja eftir eldri reglugerð, sé óumflýjanleg.

Óheppileg tímasetning

Nú er ekki bara það til að taka að ný reglugerð sé ekki tilbúin heldur eru fleiri rök sem hníga að því að skynsamlegt sé að fresta innleiðingu og jafnvel að taka hana í einhverjum skrefum. Byggingariðnaðurinn er í sögulegu lágmarki og íbúðabyggingar fóru niður fyrir það sem sást í kreppunni miklu um 1930 í Reykjavík. Því lengur sem byggingarmarkaðurinn er frosinn, því meiri líkur eru á byggingarsprengju eftir að hann loks tekur við sér. Því er tímasetning innleiðingar á nýrri byggingarreglugerð ekki skynsamleg sé horft til þessa þar sem augljós kostnaðarauki fylgir innleiðingu hennar. Taldir eru upp þeir þættir sem meðal annars hafa orsakað stöðnun markaðarins frá árinu 2008:

Ÿ Kaupmáttur hefur almennt rýrnað.

Ÿ Lóðarverð hefur staðið í stað en markaðsverð íbúða hefur lækkað. Sveitarfélög eiga erfitt með að lækka lóðarverð sökum sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og reglugerðar 502/2012 um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Ÿ Krafa um eigið fé hefur aukist frá því að vera 0-10% upp í um 30%.

Ÿ Fjármagnskostnaður hefur hækkað.

Þetta eru þættir sem þegar blasa við og verður ekki hjá vikist á einfaldan hátt. Ákvörðun um að innleiða nýja byggingarreglugerð í skynsamlegum áföngum er hins vegar ákvörðun sem hægt er að taka og með því gæfist ómetanlegur tími fyrir þá sem að verkefninu vinna að ljúka því góða starfi og sannreyna ákvæði reglugerðarinnar og kostnaðarmeta. Heppilegur tími gæti verið að innleiða nýja reglugerð í áföngum á tveimur til fimm árum.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×