Viðskipti innlent

Ótrúlegt að ekki hafi orðið óeirðir

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Lars Christensen er eindreginn andstæðingur gjaldeyrishafta og segir að það sé ekki bara gerlegt að afnema þau hér sem fyrst heldur mjög æskilegt. Að hans mati valda höft því að markaðshagkerfið afskræmist.
Lars Christensen er eindreginn andstæðingur gjaldeyrishafta og segir að það sé ekki bara gerlegt að afnema þau hér sem fyrst heldur mjög æskilegt. Að hans mati valda höft því að markaðshagkerfið afskræmist. fréttablaðið/GVA
„Það er ótrúlegt að það hafi verið hægt að fara í svona viðamiklar efnahagsaðgerðir til að aðlaga fjárhag eins lands að nýjum veruleika líkt og gert var á Íslandi án þess að það yrði stórkostlegt uppþot á meðal almennings,“ segir Lars Christensen, forstöðumaður Greiningar Danske Bank. Hann kynnti nýja greiningu bankans á íslensku efnahagslífi síðastliðinn miðvikudag.

Hagvaxtaspá Danske Bank gefur til kynna að vöxtur á Íslandi verði hærri en víðast hvar í heiminum á næsta ári. Þegar Lars er spurður hvort bati Íslands sé tilkominn vegna þess að okkur hafi tekist svo vel að taka til í ríkisfjármálum okkar og aðlaga skuldir eða hvort við séum svona ofarlega á hagvaxtarlistanum vegna þess að ástandið sé svo slæmt hjá öðrum löndum segir hann svara að leita í báðu. „Á Norðurlöndunum eru vandamál hjá Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku, þótt Noregur sé auðvitað í vexti áfram. Það þýðir að Ísland verður það ríki á Norðurlöndum, fyrir utan Noreg, sem mun vaxa mest á næsta ári. Það eru hins vegar ekki endilega góðar fréttir fyrir ykkur að nágrönnum ykkar gangi illa og það mun hafa áhrif á vöxt á Íslandi þegar fram í sækir. En þær efnahagslegu aðgerðir sem gripið hefur verið til á Íslandi í ríkisfjármálum og skuldaendurskipulagningu hafa tekist mjög vel.

Samhliða hefur peningamálastefnan linað sársaukann með gengisfalli krónunnar. Slíkt samspil efnahagslegra aðgerða og gengisfellingar væri til dæmis mjög hentug lausn fyrir mörg ríki í Evrópu sem eru í vandræðum, en er ekki í boði út af myntsamstarfinu.“

Lars leggur þó áherslu á að það sé ekki hægt að staðhæfa í dag, fjórum árum eftir að kreppan hófst, hvaða lönd hafi valið réttu leiðina og hver ekki. „Það getur allt breyst svo snögglega. Í dag er mikið talað um að leiðir Íslands og Eistlands séu leiðir sem ætti að vera fyrirmyndir.“

Eigum að horfa til Singapúr

Að mati Lars er upptaka annars gjaldmiðils, til dæmis evru eða Kanadadollars, engin töfralausn fyrir Ísland. „Það er enginn vafi á því að peningamálastefna á Íslandi frá stofnun lýðveldisins hefur brugðist algjörlega. En lausnin þarf ekki endilega að liggja í því að skipta um gjaldmiðil. Ég hef líka miklar efasemdir um evrusamstarfið. Kreppan sem þar ríkir hefur sýnt hversu erfitt það er að skeyta jafn ólíkum efnahag og raun ber vitni saman í myntbandalag. Ísland yrði reyndar líkast til í betri aðstöðu til að laga sig að breyttum efnahagslegum forsendum hverju sinni en mörg lönd sem þegar eru aðilar að sambandinu, en efnahagslíf Íslands er samt sem áður mjög ólíkt þeim sem mynda evrusamstarfið.“

Lars mælir frekar með því að Ísland horfi til Singapúr í leit að hentugri peningamálastefnu, en stefna landsins felur í sér fljótandi gjaldmiðil með takmörkunum. Gjaldmiðillinn, Singapúrdollarinn, er síðan tengdur við gengiskörfu mynta helstu viðskiptalanda Singapúr. Lars segir margt líkt með ríkjunum tveim. Íbúar þeirra beggja hafi háar tekjur, þau sé fámenn og séu háð ytri aðstæðum. „Þetta myndi hjálpa til við að jafna sveiflur í útflutningi og mynda stöðugleika. Ef Ísland myndi tengja sig við körfu þá ætti heimsmarkaðsverð á áli líka að vera í körfunni, enda álútflutningur gríðarlega stór hluti af útflutningi landsins. Álverðið ætti samt að vera lítill hluti af körfunni, kannski tvö til fimm prósent, en þetta myndi leiða til þess að gjaldmiðillinn styrktist við hækkun á álverði.“

Höft afskræma markaðinn

Lars er eindreginn andstæðingur gjaldeyrishafta og segir að það sé ekki bara gerlegt að afnema þau hér sem fyrst heldur mjög æskilegt. Að mati Lars valda höft því að markaðshagkerfið afskræmist. Slík afskræming aukist síðan með hverju árinu sem þau eru við lýði og skapi alls kyns neikvæðar hliðarverkanir. Á endanum muni það hafa neikvæð áhrif á hagvöxt. „Gjaldeyrishöft draga úr vilja stjórnmálamanna við að leysa þann vanda sem er til staðar. Þegar við bætist að það er fínn hagvöxtur á Íslandi, miðað við það sem er að gerast á alþjóðavísu, þá virðist ekki vera mikill hvati til að afnema þau. En höft hafa neikvæð áhrif. Fjárfestar treysta því ekki að þau verði aukin eða þeim breytt og tilfinning skapast á meðal þeirra að tilvera haftanna muni dragast verulega á langinn.“

Skilja þarf á milli

Spurður hvort hann telji hægt að afnema höftin án þess að einhvers konar samningar við eigendur aflandskróna, sem eiga hundruð milljarða króna innan hafta, liggi fyrir svarar Lars því neitandi. „Það þarf hins vegar að skilja á milli peningamála og efnahagsmála. Afnám hafta er til að mynda talið munu hafa þau áhrif að krónan veikist. Það myndi hafa mikil áhrif á mjög skuldsettar einingar. En það á ekki að vera viðfangsefni peningamála að taka á gjaldfærnisvandamálum heimila, fyrirtækja eða opinberra aðila. Það á að vera viðfangsefni efnahagsmála. Það þarf að taka ákvörðun um hvort viðkomandi aðili sé lífvænlegur og hvort það eigi að leggja honum til meira fé. Það á ekki að halda honum lifandi með peningamálastefnu. Þá yrði uppi svipað ástand og var í Japan í um áratug þar sem uppvakningsbönkum var haldið á lífi í stað þess að tekið væri á undirliggjandi vandamálum þeirra. Ef heimilum, fyrirtækjum og opinberum aðilum er haldið lifandi með gjaldeyrishöftum þá er verið að fela vandann í stað þess að taka á honum. Það græðir enginn á því.“

Lars ítrekar þó að Ísland hafi staðið sig mjög vel í að taka á þessum málum, sérstaklega hvað varðar skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja. Líklega hafi ekkert ríki unnið jafn vel í því máli og náð jafn miklum árangri. „Ísland er líkan sem vert er að fylgja í þessum málum. Það þarf að taka á þeim og það hefur verið gert á Íslandi. Sjáið til dæmis það sem er verið að gera með Grikkland. Þar er verið að henda peningum inn í ríki sem er í raun gjaldþrota til að halda því á floti. Það er hörmulegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×