Neytendur

Vísar á­sökunum um sam­ráð á bug

Bjarki Sigurðsson skrifar
Magnús Hafliðason er framkvæmdastjóri N1.
Magnús Hafliðason er framkvæmdastjóri N1. Vísir/Sigurjón

Framkvæmdastjóri N1 vísar ásökunum um verðsamráð olíufélaganna á bug. Í greiningu ASÍ kemur fram að bensínverð á Íslandi lækki mun hægar en heimsmarkaðsverð.

Verðlagseftirlit ASÍ birti í morgun grein þar sem kom fram að ólíkt því sem þekkist almennt á heimsvísu, lækki olíuverð hjá íslensku olíufélögunum ekki í takt við heimsmarkaðsverð. Frá janúar hafi lægsta eldsneytisverð innanlands lækkað um 2,5 prósent, samanborið við 13,7 prósent lækkun heimsmarkaðsverðs.

Ekkert samráð

Í greininni er ýjað að því að olíufélögin stundi einhverskonar samráð. Olíuverð hjá N1, Orkunni og ÓB sé nánast alltaf það sama.

„Ég get auðvitað bara svarað fyrir mitt félag. Við höfum skýra nálgun á það hvernig við högum verðlagningu á eldsneyti. Við höfum allt þetta ár verið fyrst félaga til að lækka verð. Ég held það sé merki um hversu mikill samkeppnismarkaður þetta er. Við breytum verði, sendum í kerfið og mínútum síðar er samkeppnin búin að bregðast við. Að það sé lítill verðmunur milli félaga segir ekki til um að það sé verðsamráð, þvert á móti er samkeppnin svo mikil,“ segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1.

Margt fleira inni í verðinu

Hann segir greiningu ASÍ vera vonbrigði.

„Það er auðvitað margt fleira en heimsmarkaðsverð sem mótar eldsneytisverð á Íslandi. Föst gjöld, föst gjöld til ríkisins og annar rekstrarkostnaður er þarna inni líka. Þannig það er ekki hægt að horfa í prósentu breytingu á heimsmarkaðsverði og ætlað að hún skili sér að fullu í sömu prósentu á dælu. Það gefur auga leið. Það eru veruleg vonbrigði að ASÍ komi fram með þessum hætti og sé ekki með vandaðri vinnubrögð,“ segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×