Innlent

Algengt að kynferðisbrotamenn gefi drengjum gjafir

SV skrifar
Mynd/Getty
Umbun af einhverju tagi frá ofbeldismönnum til þolenda virðist einkenna kynferðisbrot gegn drengjum. Algengast er að gerendur í slíkum málum reyni að múta drengjum með peningum, en einnig er sælgæti, sígarettur og áfengi algengt form umbunar frá ofbeldismönnum til þolenda sinna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirgripsmikilli rannsókn Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á öllum dómum Hæstaréttar frá stofnun hans árið 1920 til loka apríl síðastliðins er varða kynferðisbrot gegn drengjum.

Samkvæmt skoðun á dómunum virðast drengir vera líklegri en stúlkur til að vera misnotaðir kynferðislega af ókunnugum, en þolandi þekkti ekki ofbeldismanninn í meira en helmingi tilvika. Þolendur voru kunnugir gerandanum í 33 prósentum tilvika og í einu tilviki misnotaði maður ungan frænda sinn í tólf ár. Í fjörutíu prósentum dómanna var um endurtekið brot að ræða.

„Má telja það nokkuð athyglisvert í ljósi þess hve margir gerendur voru drengjunum ókunnugir og því kannski eðlilegt að gera ráð fyrir að svona nokkuð myndi ekki henda sama þolandann nema einu sinni. Það sem virðist skýra þetta er hversu mörgum drengjanna var umbunað," segir Svala í skýrslu sinni. „Þetta er aðferð sem gerendurnir notuðu til þess að komast í samband við drengina og til þess að halda misnotkuninni áfram. Þeir freista þeirra með gjöfum."

Hún bendir á að í ljósi þess að gerendur eru oftast ókunnugir drengjunum njóti þeir þar með ekki trausts þeirra. Þetta sé því leið þeirra til að tryggja sér þagmælsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×