Skoðun

Mikilvægur dagur fyrir Álftnesinga og Garðbæinga

Laugardagurinn 20. október er af tvennum sökum stór dagur fyrir okkur á Álftanesi og í Garðabæ. Þá býðst okkur að greiða atkvæði um tvennt sem varðar framtíð okkar. Annars vegar í þjóðaratkvæðagreiðslu um endurbætta stjórnarskrá og hins vegar í atkvæðagreiðslu um endursameiningu Álftaness og Garðabæjar eftir aðskilnað byggðanna á ofanverðri nítjándu öld.

Sameiningin hefur verið vel undirbúin af hálfu beggja sveitarstjórna og annarra sem málið varðar. Eftir ítarlega hreingerningu á fjármálum Álftness geta sveitarfélögin nú sameinast á jafnræðisgrundvelli. Það er því ekki eftir neinu að bíða.

Sameinað sveitarfélag verður með um 14 þúsund íbúa á víðfeðmu landsvæði með ríkulegri náttúru. Þessi sveitarfélög henta einkar vel til sameiningar. Í fyrsta lagi liggja þau hvort að öðru og eiga sér sameiginlega fortíð. Í öðru lagi verður fjölbreytni lands og náttúru meiri í hinu sameinaða landssvæði en er í þeim hvoru um sig; við strendur og fjörur Álftaness bætast hraun og eldvörp í Garðabæ. Í þriðja lagi verður aldurssamsetning íbúanna eðlileg eftir sameiningu, en börn eru óvenju stór hluti íbúa á Álftanesinu en aldraðir margir í Garðabæ. Og svo mætti lengi telja.

Sameinað sveitarfélag getur veitt íbúunum nútímalega þjónustu hvort sem það er handa börnum eða öldruðum. Sveitarfélagið nýja getur með reisn tekið við þeim verkefnum sem efalaust verða færð frá ríkinu heim í héruðin. Í tillögunum nýju um stjórnarskrá er sérstaklega að því stefnt.

Undirritaður sat í hreppsnefnd í þáverandi Bessastaðahreppi fyrir þremur áratugum. Þá var ég hikandi í sameiningarmálum. Reynslan af rekstrar- og stjórnunarvanda Álftaness hefur kennt mér, og vonandi sem flestum þeim sem voru sama sinnis, að við höfðum á röngu að standa. Hikið er horfið fyrir sannfæringu um að sameiningin verður báðum sveitarfélögunum til góðs, líka okkur á Álftanesi.

Álftnesingar! Mætum öll á kjörstað í skólanum 20. október og greiðum atkvæði um tvö mál sem skipta framtíð okkar miklu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×