Innlent

Bláa lónið flestum minnisstæðast

ÓKÁ skrifar
Fólki sem hingað kom síðasta vetur var Bláa lónið, náttúrufar og matarupplifun minnisstætt.Fréttablaðið/Vilhelm
Fólki sem hingað kom síðasta vetur var Bláa lónið, náttúrufar og matarupplifun minnisstætt.Fréttablaðið/Vilhelm

Erlendir ferðamenn sem sóttu landið heim síðasta vetur voru sáttir við dvöl sína, samkvæmt könnun sem MMR vann fyrir Ferðamálastofu.

„Íslandsferðin stóðst væntingar 95 prósenta svarenda og tæp 85 prósent töldu líklegt að þau myndu ferðast aftur til Íslands,“ segir á vef Ferðamálastofu. „Langflestir voru hér í fríi og var dvalarlengdin að jafnaði um 6,6 nætur.“

Fram kemur að fimmtungur hafði komið hingað áður og að í átta tilvikum af tíu hafi ferðalagið verið bundið við Ísland.

Af þeim þremur atriðum sem ferðafólkinu fannst minnisstæðust hér á landi nefndu flestir Bláa lónið, eða 35,2 prósent. Þar á eftir nefndu 27,7 prósent náttúru eða landslag, 19,6 prósent mat eða veitingastaði, 17,1 prósent fólk og gestrisni og 16,1 prósent norðurljósin.
Aflað var upplýsinga um erlenda ferðamenn, aðdraganda að Íslandsför þeirra, ferðahegðun, eyðsluhætti og viðhorf til íslenskrar ferðaþjónustu. „Um var að ræða framhald af netkönnun sem gerð var sumarið 2011 en netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1. september 2011 til 31. maí 2012.“ Í úrtaki MMR voru 4.512 og var svarhlutfall 52,6 prósent.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.