Innlent

Hefur fimmtán skýrslur í vinnslu

Ríkisendurskoðun hefur sent 84 skýrslur og ábendingar til Alþingis á tveimur árum.
Ríkisendurskoðun hefur sent 84 skýrslur og ábendingar til Alþingis á tveimur árum.
Ríkisendurskoðun hefur um þessar mundir fimmtán skýrslur í vinnslu. Þar af eru tvær samkvæmt formlegri beiðni frá Alþingi; skýrsla um framlög til æskulýðsmála og skýrsla um innleiðingu fjárhagsupplýsingakerfis fyrir ríkið.

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um skýrslubeiðnir þess til Ríkisendurskoðunar og afdrif þeirra.

Í frétt Ríkisendurskoðunar kemur fram að frá því í ársbyrjun 2007 hafa samtals átta formlegar skýrslubeiðnir borist stofnuninni frá Alþingi. Einni var hafnað en af hinum sjö hefur öllum nema einni verið svarað með fullbúinni skýrslu.

Frá ársbyrjun 2010 hefur Ríkisendurskoðun sent samtals 84 skýrslur og sjálfstæðar ábendingar til Alþingis sem jafnframt hafa verið birtar opinberlega. Leit í gagnagrunni Alþingis, sem aðgengilegur er á vefsíðu þess, leiðir í ljós að nefndir þingsins hafa skilað skriflegu áliti um 24 af þessum skýrslum eða ábendingum.

Auk skýrslubeiðna fær Ríkisendurskoðun á hverju ári beiðnir frá Alþingi um að gefa álit sitt á lagafrumvörpum, meðal annars til fjárlaga og fjáraukalaga.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×