Innlent

Æfa viðbrögð við hryðjuverkum

Fjöldi stofnana kemur að fjölþjóðaæfingunni Northern Challenge. Fréttablaðið/Stefán
Fjöldi stofnana kemur að fjölþjóðaæfingunni Northern Challenge. Fréttablaðið/Stefán
Northern Challenge, fjölþjóðleg æfing sprengjusérfræðinga, hófst í vikunni. Æfingar fara fram á Keflavíkurflugvelli og á fyrrverandi varnarsvæðum utan hans, í höfninni í Helguvík, Patterson-svæðinu og í Hvalfirði.

Að því er fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar er æfingin nú haldin hér á landi í tólfta sinn. Að henni standa Landhelgisgæslan og NATO, en tíu þjóðir með um tvö hundruð liðsmenn taka þátt.

Tilgangur Northern Challenge er sagður að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. „Búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur víðs vegar um heim og aðstæður hafðar eins raunverulegar og hægt er. Einnig er rannsóknarþátturinn tekinn fyrir þar sem ákveðin teymi hafa einungis þann tilgang að rannsaka vettvang og fara yfir sönnunargögn,“ segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Fram kemur að reynslan frá æfingunum hafi gert starfsmönnum Landhelgisgæslunnar kleift að fara utan sem friðargæsluliðar til að taka þátt í mannúðarstarfi sem unnið hafi verið í Líbanon og Írak. „Þar hefur starf sprengjusérfræðinga falist í að hreinsa sprengjur af átakasvæðum og er það mikilvægur þáttur í uppbyggingarstarfi því sem fer fram til að skapa friðvænleg skilyrði til framtíðar.“- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×