Skoðun

Rekstur LSH – „talnalækningar“ eða staðreyndir?

María Heimisdóttir skrifar
Meintar „talnalækningar“ á Landspítala eru gerðar að umtalsefni í grein Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur í Fréttablaðinu 27. sept. sl. Þar heldur Guðrún því fram að upplýsingar um rekstrarafkomu LSH séu settar fram með villandi hætti „athugasemdalaust – endalaust“. Hún endar grein sína á að spyrja „Hver er tilgangurinn?“.

Það er góð spurning. Hver er tilgangur fólks með því að birta ítrekað skrif þar sem röngum og/eða villandi upplýsingum um starfsemi og rekstur LSH er haldið að almenningi? Hvaða tilgangi ætli slíkur málflutningur þjóni? Eru hagsmunir skattgreiðenda (og þar með sjúklinga LSH og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu) þar í fyrirrúmi? Kynnum okkur „talnalækningarnar“.

Frá árinu 2007 hefur spítalinn skorið niður um 23% eða sem nemur 9,5 milljörðum króna á ársgrunni árið 2012 og 34 milljörðum króna samtals á tímabilinu 2008 til 2012 á föstu verðlagi ársins 2012. Þessi niðurskurður stafar annars vegar af skertum ríkisframlögum til spítalans á fjárlögum og hins vegar af óhagstæðum gengisáhrifum auk annarra breytinga í rekstrarumhverfi sem ekki hafa verið bætt að fullu í framlagi ríkisins til LSH. Þessi ytri áhrif eru vissulega ekki skerðing á ríkisframlagi til LSH en krefjast engu að síður viðbótarhagræðingar innan sjúkrahússins til að mæta auknum kostnaði vegna þeirra. Ríkisframlag árið 2012 er 6,6 milljörðum króna lægra en árið 2007 eða sem nemur 16% á föstu verðlagi 2012 miðað við almennar verðlagsforsendur. Almennar verðlagsforsendur miðast við þróun launavísitölu opinberra starfsmanna og þróun neysluverðsvísitölu. Viðbótarhagræðingarkrafa vegna neikvæðra áhrifa af gengisþróun krónunnar frá árinu 2007, umfram almennt verðlag, er metin um 7% á ársgrunni m.v. árið 2012 eða um 2,9 milljarðar króna. Verulegur hluti rekstrarvöru LSH er keyptur inn í erlendum gjaldmiðli í kjölfar útboða á fjölþjóðamarkaði og því krefst óhagstæð gengisþróun þess að hagrætt sé enn frekar innan spítalans til að mæta þeim aukakostnaði sem af henni hlýst. Heildarskerðingin, 9,5 milljarðar miðað við árið 2012, er summa þessara tveggja þátta, þ.e. skerðingar ríkisframlags (6,6 milljarðar) og óhagstæðrar gengisþróunar umfram almennt verðlag (2,9 milljarðar).

Það er ekki von að Guðrún fái raunhagræðingu LSH fram með sinni aðferð sem er í stuttu máli sú að fletta upp í fjárlögum síðustu 5 ára, sem eðli málsins samkvæmt eru birt á verðlagi hvers árs og endurspegla ekki nema að ákveðnu leyti raunrekstrarumhverfi og hagræðingarþörf þeirra stofnana sem þau taka til. Á þessum tíma hefur verðbólga mælst 53% og vísitala meðalgengis hækkað um 88%. Það að taka ekki tillit til þessara þátta, eins og Guðrún gerir sig seka um, er villandi og hreinlega rangt eins og flestum má vera ljóst.

Landspítali hefur frá árinu 2007 dregið saman rekstrarkostnað sinn um 23% á ársgrunni og hagrætt um samtals 34 milljarða á samræmdu verðlagi á tímabilinu. Landspítali mun áfram upplýsa stjórnvöld, skattgreiðendur og almenning um rekstur sinn og starfsemi út frá vísindalegum, faglega viðurkenndum aðferðum eins og hér hefur verið lýst. Ef menn vilja kalla það „talnalækningar“ þá verður að hafa það enda virðist því miður vera til fólk sem kýs fremur getgátur og rökleysur en skýr rök og faglega vinnu.




Skoðun

Sjá meira


×