Skoðun

Vöktun á næringu viðkvæmra hópa

Hæfileg næring og gott næringarástand skiptir sköpum fyrir vöxt og þroska á fósturskeiði og barnsaldri og fyrir þá sem eru viðkvæmir vegna sjúkdóms eða hárrar elli. Rétt eins og góð næring fæst með matvælum, þá eru matvæli einnig lang stærsta flutningsleið óæskilegra efna úr umhverfinu inn í mannslíkamann. Óæskileg efni geta þannig borist í viðkvæma einstaklinga eins og börn og barnshafandi konur og haft neikvæð áhrif á heilsuna. Þetta geta verið aðskota- eða mengunarefni s.s. mýkingarefni úr plasti, þungmálmar, eða þrávirk lífræn efni. Eðlilega er mun meira vitað um áhrif fjölda efna í dag en fyrir nokkrum árum og áratugum en margt er þó enn óþekkt. Til að kanna hversu mikið berst í líkamann er nauðsynlegt að mæla styrk þessara efna reglulega í fólki með lífsýnamælingum, rétt eins og að nauðsynlegt er að fylgjast reglulega með inntöku á öðrum óæskilegum efnum og næringarefnainntöku hjá almenningi með mataræðisrannsóknum. Samsvara aukinni vitund almennings hafa nágrannaþjóðirnar að undanförnu lagt aukna áherslu á reglubundna vöktun, meðal annars, í börnum og konum á barneignaaldri. Rannsóknastofa í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands er sú eining hérlendis sem mælt hefur neyslu og næringarástand viðkvæmra hópa, en reglubundinni vöktun á styrk óæskilegra efna hjá viðkvæmum hópum hefur hingað til ekki verið sinnt á skipulegan hátt vegna kostnaðar. Stofan er í dag nær eingöngu rekin fyrir styrkjafé frá vísindasjóðum.

Hvaða óæskilegu efni finnast í matvælum?

Þau efni sem um ræðir eru til dæmis gömul og ný þrávirk lífræn efni (díoxín, PCB), þungmálmar (kvikasilfur, blý og kadmíum), skordýraeitur og fleira sem safnast getur upp í náttúrunni og komist þannig í matinn sem við borðum. Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst að efnum úr umbúðapakkningum svo sem þalötum og bisphenól-A (BPA) en einnig nýjum þrávirkum, yfirborðsvirkum efnum eins og PFOS og PFOA. Engin þessara síðarnefndu efna hafa verið mæld á skipulegan hátt hér á landi og nær ekkert er vitað um hvort ástandið hér á landi er betra eða verra en í nágrannalöndum. Nauðsynlegt er því að rannsaka áhrif slíkra efna samfara notkun þeirra til að geta metið hvort inntaka þeirra efna sé óeðlilega mikil og hvort varúðar sé þörf.

Engin regluleg vöktun í dag

Hér á landi hafa farið fram rannsóknir á mataræði fólks með óreglulegu millibili, á fullorðnum á vegum Manneldisráðs síðar Lýðheilsustöðvar og Landlæknis ásamt Rannsóknastofu í næringarfræði og á ungum börnum og öðrum viðkvæmum hópum hjá Rannsóknastofu í næringarfræði. Í hvert sinn þarf að berjast fyrir fjármagni og mismunandi hvaða skilningi slíkar rannsóknir hafa mætt. Ekki hefur verið til staðar skipulögð vöktun á eiturefnabúskap og næringarefnabúskap landsmanna. Slíkt fyrirkomulag er almennt ekki talið ásættanlegt. Í löndunum í kringum okkur er fjármagni varið til slíks eftirlits. Dioxínmengun frá sorpstöðvum og notkun iðnaðarsalts í matvæli um margra ára skeið eru dæmi sem sýna að regluleg vöktun á styrk óæskilegra efna í lífsýnum á fyllilega rétt á sér hér á landi og væri mikilvægt öryggistæki.

Vöktun á mat og fólki gefur betri heildarmynd

Vöktun á eiturefnum í matvælum er mikilvægur þáttur í fæðuöryggi en dugir alls ekki ein sér. Það er nauðsynlegt að vita hversu mikið er borðað af hinum ýmsu matvælum til að geta gert raunverulegar áhættugreiningar. Að hafa aðgang að vel útfærðum mataræðisrannsóknum og upplýsingum um styrk í blóði er því mikilvægur öryggisventill fyrir stofnanir sem fylgjast með eiturefnum í matvælum.

Um Rannsóknarstofu í næringarfræði

Rannsóknarstofa í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands hefur yfir að ráða vísindafólki sem kann að skipuleggja og framkvæma rannsóknir á mataræði. Þar er einnig fagþekking til að lesa úr niðurstöðunum þannig að hægt sé að bregðast við, ásamt öðrum, ef þörf er á. Þá er birting slíkra gagna mikilvæg innanlands sem utan og nýtist áralöng reynsla þar vel.

Stuðningur er til staðar frá öðrum stofnunum

Skilningur á vöktun sem þessari er til staðar á þeim stofnunum sem þekkja til málaflokksins, svo sem Matís-matvælarannsóknastofnun iðnaðarins, Matvælastofnun á Selfossi, Landlæknir og fleiri aðilar. Náið samstarf þarf að vera milli stofnana til að nýta sem best gögn og mannauð. Niðurstöður og túlkanir vöktunar á næringu, næringarástandi og eiturefnum meðal þjóðarinnar myndu nýtast öllum þeim ráðuneytum sem málið er skylt.

Reglubundin vöktun á eiturefna- og næringarbúskap viðkvæmra hópa og trygging fjármagns til þess er nauðsynleg í þjóðfélagi sem lætur sér annt um þegna sína.




Skoðun

Sjá meira


×