Skoðun

"Látið í ykkur heyra“

Arnfríður Gísladóttir skrifar
Fyrirsögnin að ofan eru lokaorð pistils Björns Zoëga, forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH), þann 14. sept sl.

Stofnanasamningur LSH við hjúkrunarfræðinga er enn ófrágenginn. Umboð spítalans til að ganga frá samningnum ætti ekki að draga í efa þó enn sé óljóst hve miklu fé verður varið til þessa málaflokks. Kröfur hjúkrunarfræðinga um endurröðun í starfaflokka eru raunhæfar í ljósi launaþróunar hjá hinu opinbera. Kostnaðurinn við að uppfylla þær kröfur er ekki nema brot af þeim upphæðum sem búið er að spara, eða 32 milljarða á sl. 5 árum, m.a. með launalækkunum hjúkrunarfræðinga.

Næstu daga stendur til að kynna fyrir stjórnendum og starfsfólki LSH í hvaða verkefni fjárheimildum verður varið og skora ég á ykkur öll að láta í ykkur heyra og koma ábendingum til forstjóra áður en þær ákvarðanir verða teknar. Launaskerðing hjúkrunarfræðinga hefur ekki enn verið bætt þó loforð um slíkt hafi legið fyrir þegar kjör voru skert umfram viðmið og vaktalínum breytt.

Aukið vinnuálag, lenging vakta í 12 klst t.d. á skurðstofum og aukinn fjöldi bakvakta að sumri um helming hafa ekki fært hjúkrunarfræðingum neinar launabætur þó svo að ákvæði um slíkt sé til í kjarasamningi. Starfsþróunarkerfið sem verið hefur við lýði á stofnuninni hefur alls ekki þjónað sínum tilgangi eins og það var kynnt í upphafi og hefur haldið okkur í gíslingu smánarlauna í fjársvelti undanfarinna ára.

Það hefur einnig mismunað hjúkrunarfræðingum og dæmi um að ekki hafi verið launatengd starfsþróun í boði fyrir einstaka starfaflokka í 6 ár. Námskeiðin hafa sum hver verið talin móðgun og tímasóun og hefur kerfið sem slíkt fengið falleinkunn á fjölmennum fundum hjúkrunarfræðinga á síðustu dögum.

Nú ríður á að ljúka samningi þessum á sanngjarnan hátt og tek ég undir hvatningarorð forstjóra, látið í ykkur heyra.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×