Skoðun

Faxaflóahafnir – Hafnarfjarðarhöfn – sameining?

Ó. Ingi Tómasson skrifar
Hafnirnar í Reykjavík, Akranesi, Borgarnesi og Grundartanga sameinuðust árið 2000 í eitt fyrirtæki, Faxaflóahafnir. Reynslan af sameiningunni er góð, verulegir fjármunir hafa sparast og sveitarfélög þessara hafna notið góðs af þessari ákvörðun. Annað gott dæmi um vel heppnaða sameiningu er þegar Slökkvilið Reykjavíkur og Hafnarfjarðar sameinuðust og úr varð Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Í ljósi þessa er athyglisvert að velta því fyrir sér hvort við Hafnfirðingar ættum að hefja viðræður við Faxaflóahafnir um sameiningu eða samstarf.

Hafnirnar

Hafnarfjarðarhöfn er í mikilli samkeppni við Faxaflóahafnir, en vegna stærðar sinnar eru þær síðarnefndu í yfirburðastöðu. Tölur úr ársreikningi hafnanna árið 2011 sýna þetta ef til vill best.

Ekki er saman að líkja aðstöðu til löndunar og uppskipunar þar sem mikil uppbygging hefur farið fram á undanförnum árum hjá Faxaflóahöfnum en hvorki hafa verið til fjármunir hjá höfninni sjálfri né áhugi hjá einkaaðilum að byggja upp í Hafnarfjarðarhöfn. Höfnin var á árum áður helsti burðarás í atvinnulífi Hafnfirðinga, hin síðari ár hefur skipakomum og löndunum fiskiskipa fækkað. Ráðist var í miklar fjárfestingar þegar ákveðið var að stækka hafnarsvæðið við Hvaleyrina. Landfylling var um 23 ha. og hafnarbakkinn var lengdur um 620 metra. Heildarlegupláss við Hafnarfjarðarhöfn er um 1.200 m. Áætlanir gerðu ráð fyrir aukinni starfssemi í og við Hafnarfjarðarhöfn en því miður hafa þær áætlanir ekki gengið eftir og er stór hluti landfyllingarinnar nýttur undir geymslupláss og húsnæði sem lítil starfsemi er í. Þá er nýting á leguplássi við hafnarbakkana langt undir væntingum. Eftir stendur hafnarmannvirki að verðmati um 3 milljarðar kr.

Ávinningur sameiningar

Þegar hugað er að framtíð hafnarsvæðis okkar Hafnfirðinga þá ber að líta til þess að hér er um gríðarlega verðmætt land og bakka að ræða sem eru vannýtt. Viðræður við Faxaflóahafnir munu snúast um sameiningu hafnanna (eignir og skuldir) eða sameiningu án skilgreindra lóða. Við sameiningu gæti sparnaður fyrir báðar hafnir orðið verulegur. Verði af sameiningu má gera ráð fyrir aukinni skipaumferð og starfsemi við höfnina þar sem Faxaflóahafnir munu nýta sér hið verðmæta land og bakka sem eru til staðar hjá Hafnarfjarðarhöfn. Þá gæti löngu tímabær uppbygging smábátahafnarinnar orðið að veruleika. Jafnframt má gera ráð fyrir tekjuaukningu til bæjarins vegna aukinna fasteignagjalda og annarra gjalda er tengjast starfsemi hafnarinnar. Komi ekki til nýrra tækifæra hjá Hafnarfjarðarhöfn þurfa Hafnfirðingar að gera upp við sig hver framtíð hafnarsvæðisins á að vera.




Skoðun

Sjá meira


×