Skoðun

Hvar er listinn Arion banki?

Jón Ásgeir Jóhannesson skrifar
Mér þóttu það nokkur tíðindi þegar Víglundur Þorsteinsson kom fram og sakaði Arion banka hf. um að hafa gengið harðar fram gegn sér en öðrum skuldurum bankans og sagði að hann og hans félag hefðu verið á sérstökum lista innan bankans. Á þeim lista hefðu verið lífvænleg fyrirtæki, sem bankinn hefði ákveðið að taka frá eigendum sínum til að laga ójöfnuð á milli gamla Kaupþings og nýja Kaupþings.

Frásögn Víglundar var kunnugleg. Það voru einmitt þessi orð sem ég heyrði haustið 2010 frá fyrrum starfsmanni Arion banka þegar hann hringdi í mig og tilkynnti mér að Arion banki ætlaði að taka Haga hf. af fjölskyldu minni. Félagið sem við höfðum byggt upp í rúm 20 ár og hófst með opnun Bónuss árið 1989. Ég spurði þennan starfsmann hvers vegna. Honum varð fátt um svör. Hann viðurkenndi að engin rök stæðu fyrir því að aðrir myndu reka Bónus betur en fjölskyldan sem stofnaði fyrirtækið. Ófarir okkar væru tengdar fjárfestingum í ólíkum geira þar sem hlutabréf í Högum höfðu verið sett að veði. Eftir snörp orðaskipti við starfsmann Arion banka viðurkenndi hann og sagði þjóstuglega: "Þú ert á listanum!" "Hvaða lista?" spurði ég. "Nú listanum um aðila sem á að kála."

Bankinn tók síðan Haga yfir og setti á markað. Allt gott og blessað og góðir drengir komu að borðinu, en bankinn seldi hlutabréfin á 40% lægra verði en því sem fjölskylda mín og erlendir fjárfestar höfðum boðið í félagið. Einu svörin voru:

"Þú ert á listanum."

Ég skora hér með á Arion banka hf. að birta listann og segja frá hver bjó hann til. Það eru of margir sem vita að hann er til – það er ekki hægt að þegja lengur. Hvaða listi var svo merkilegur að það var óhætt að taka eignir af mönnum sem kunnu með þær að fara og höfðu byggt upp og í ofanálag selja þær eignir á lægra verði en bankinn gat selt þær á?


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.