Skoðun

Veiðar á lóu og spóa

Að meginreglu eru allar villtar fuglategundir friðaðar hér á landi samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þær tegundir sem heimilt er að veiða eru sérstaklega tilgreindar í reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Það sama á við um veiðitímabil og veiðiaðferðir. Lóa og spói eru ekki á meðal þeirra 29 fuglategunda sem heimilt er að veiða á Íslandi en þær eru hrafn, fýll, dílaskarfur, toppskarfur, súla (hefðbundin ungataka), helsingi, hvítmáfur, rita, skúmur (hefðbundin eggjataka), kjói, álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi, svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, heiðagæs, duggönd, hávella, toppönd, hettumáfur, grágæs, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, skúfönd og rjúpa.

Um vernd villtra fugla í Evrópusambandinu er fjallað í svonefndri fuglatilskipun. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja vernd allra fuglategunda sem eiga náttúruleg heimkynni á yfirráðasvæði aðildarríkja ESB. Samkvæmt tilskipuninni er meginreglan sú að allar fuglategundir eru friðaðar en í viðaukum við tilskipunina eru taldar upp þær tegundir sem undanþegnar eru veiðibanni.

Í viðauka II-A við fuglatilskipunina eru taldar upp 24 fuglategundir sem öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að leyfa veiðar á. Af þessum 24 tegundum lifa fimmtán á Íslandi. Sex þeirra er heimilt að veiða hér á landi (grágæs, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, skúfönd og rjúpa) en hinar níu eru friðaðar. Ekki yrði þörf á að aflétta friðun umræddra tegunda við innleiðingu tilskipunarinnar, ef til aðildar Íslands kæmi, þar sem aðildarríkjum er heimilt að kveða á um strangari verndarákvæði en tilskipunin krefst.

Í viðauka II-B við fuglatilskipunina er listi yfir þær fuglategundir sem sumum aðildarríkjum er heimilt að leyfa veiðar á, á sínu umráðasvæði, og tafla sem sýnir hverjar þessara tegunda má veiða í hvaða landi. Bæði lóan og spóinn eru taldar upp í viðauka II-B. Heimilt er að leyfa veiðar á lóu í Belgíu, Danmörku, Grikklandi, Frakklandi, Írlandi, Möltu, Hollandi, Portúgal og Bretlandi. Í þremur löndum, Danmörku, Frakklandi og Bretlandi, er heimilt að leyfa veiðar á spóa. Af þeim tegundum sem heimilt er að veiða á Íslandi eru átta taldar upp í viðauka II-B (svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, heiðagæs, duggönd, hávella, toppönd og hettumáfur) og því fordæmi fyrir því að heimilt sé að veiða þær í tilteknum aðildarríkjum.

Til að halda ástandi fuglaveiða óbreyttu í landinu, ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi, þurfa stjórnvöld að semja um heimild til áframhaldandi veiða á þeim 23 tegundum sem heimilt er að veiða á Íslandi en ekki eru taldar upp í viðauka II-A. Það mundi krefjast þess að þeim tegundunum sem heimilt er að veiða á Íslandi en hvorki eru taldar upp í viðauka II-A né II-B yrði bætt við viðauka II-B.

Veiðar á lóu og spóa verða að sama skapi ekki sjálfkrafa leyfðar þótt Ísland gerðist aðili að ESB. Þær verða bannaðar áfram svo lengi sem íslensk stjórnvöld vilja, þar sem aðildarríkjunum er ætíð heimilt að kveða á um strangari verndarákvæði en tilskipunin krefst. Hins vegar yrðu veiðar á lóu og spóa ekki heimilaðar nema með samþykki Evrópusambandsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×