Innlent

Telja sjaldgæfasta blómið héðan

Túnfífill af óþekktri tegund Fáir hafa hugmynd um að greindar hafa verið 116 tegundir af túnfífli hér á landi. Þær eru sennilega fleiri.
Túnfífill af óþekktri tegund Fáir hafa hugmynd um að greindar hafa verið 116 tegundir af túnfífli hér á landi. Þær eru sennilega fleiri.
Skoskir grasafræðingar hafa í rannsóknum sínum komist að því að eitt sjaldgæfasta blóm landsins, sem er að finna á eyjunni Hirta við vesturströnd Skotlands, hafi sennilega borist frá Íslandi. Bæði er talið koma til greina að fræ hafi borist með fuglum þó það sé ekki útilokað að komur víkinga til landsins fyrr á öldum geti skýrt tilkomu þess, segir í frétt BBC. Blómið er ekki sjaldgæft hér, enda um túnfífil að ræða.

Túnfífillinn hefur verið skilgreindur sem nýbúi í flóru Skotlands og skýrður Taraxacum pankhurstianum til heiðurs þarlendum fræðimanni.

Túnfíflinum er ekki gefinn sérstakur gaumur meðal fræðimanna hér en Starri Heiðmarsson, fagsviðsstjóri grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun, segir að danskur grasafræðingur, Christiansen að nafni, hafi fjallað um túnfífla á Íslandi í grein árið 1942. Christiansen telur 116 tegundir túnfífla vaxa á Íslandi. Ein þeirra tegunda sem Christiansen fann er Taraxacum faeroense en þá tegund telja skosku vísindamennirnir skyldasta blóminu á Hirta, að sögn Starra.

Í riti sínu lýsir Christiansen túnfíflum á Íslandi í smáatriðum; Taraxacum egilstadirense, Taraxacum akranesense, Taraxacum vestmannicum, Taraxacum skutustadirense, svo dæmi séu nefnd og segja nöfnin nokkra sögu um hvar Danann bar niður við rannsóknir sínar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×