Skoðun

Krafan er einföld og auðskilin

Árni Stefán Jónsson skrifar
Með jöfnu millibili birtast fréttir og greinar um lífeyriskjör opinberra starfsmanna. Þessar fréttir eru þó oftar en ekki mjög ónákvæmar og gefa villandi upplýsingar um stöðu lífeyrismála og þá sér í lagi um stöðu lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna (LSR). Reglulega er þó reynt að leiðrétta helstu villur í umræðunni, hér er það gert enn og aftur.

Síðustu fréttir af lífeyrismálum opinberra starfsmanna birtust m.a. í Fréttablaðinu. Þar var farið yfir stöðu LSR, bæði A- og B-deildarinnar. Sú yfirferð var að mörgu leyti ágæt, en umfjöllunin var sett þannig fram að ætli mátti að lífeyriskjör opinberra ríkisstarfsmanna væru forréttindi en ekki hluti af starfskjörum þeirra. Í umfjölluninni var sáð fræi tortryggni og óvildar í garð ríkisstarfsmanna með ósanngjörnum hætti. Málinu var stillt þannig upp að til þess að ríkið gæti staðið við launagreiðslur til sinna starfsmanna, þá yrði að hækka skatta, eða að skattgreiðendur þyrftu hver og einn að fara ofan í eigin vasa til að borga í lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna. Þetta er auðvitað fráleit framsetning. Ríkið er atvinnurekandi og fær sínar tekjur að mestu leyti af skattgreiðslum frá almenningi, sem sumir hverjir eru vel að merkja einnig ríkisstarfsmenn. Ríkið notar síðan þessar tekjur til að greiða ýmsa þjónustu fyrir landsmenn, s.s. skóla- og heilbrigðiskerfi. Hluti þessara greiðslna eru laun þeirra sem starfa við almannaþjónustuna – starfsmenn ríkisins.

Í stuttu máli lítur málið út svona:

1. Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna (LSR) er skipt í A-deild og B-deild. B-deildin er „gamla fyrirkomulagið" en það var lokað fyrir nýjum starfsmönnum 1997.

2. B-deild lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna var bæði uppsöfnunar- og gegnumstreymissjóður. Ríki og sveitarfélög greiddu lögbundinn lífeyri til sjóðanna, annað hvort fyrirfram eða í síðasta lagi þegar sjóðsfélagi hóf töku lífeyris. Í tilfelli LSR þá hefur ríkið sem atvinnurekandi ekki greitt sinn hluta lífeyrisins til sjóðsins eins og það átti að gera. Þess vegna hafa hlaðist upp skuldir ríkisins við sjóðinn.

3. A-deildin er uppbyggð eins og lífeyrissjóðir á hinum almenna markaði. Það sem er frábrugðið er hins vegar að réttindi starfsmanna í LSR eru tryggð, þannig að ef sjóðurinn stendur ekki undir þeim réttindum sem eru óaðskiljanlegur hluti launakjaranna, þá ber stjórn sjóðsins að hækka iðgjaldið samkvæmt lögum. Skuldir ríkisins við A-deildina eru tilkomnar vegna þess að stjórnvöld hafa neitað að hækka iðgjald til sjóðsins eins og lögbundið er. Iðgjaldið hefur ekki staðið undir réttindum í nokkurn tíma vegna þess að atvinnurekandinn neitar að standa við skuldbindingar sínar. Það átti að hækka iðgjaldið árið 2009, en ríkið hefur komist undan því með bráðabirgðaákvæðum í lögum sem heimila því að draga það á langinn. Á meðan hækkar skuldin.

Niðurstaðan er því sú að ríkið sem atvinnurekandi skuldar sínum starfsmönnum, bæði núverandi og þeim sem komnir eru á lífeyri. Ímyndum okkur atvinnurekanda á almennum markaði sem ekki greiðir lögbundin gjöld af launum starfsmanna sinna. Hvað er gert? Gjöldin eru sótt, ekki satt? Um þetta snýst málið. Krafa opinberra starfsmanna er einföld og auðskilin. Við viljum að ríkið borgi skuldir sínar eins og aðrir atvinnurekendur í þessu landi.




Skoðun

Sjá meira


×