Skoðun

Lífslíkur mínar eru 25 árum skemmri en annarra – vilt þú styðja mig?

Þórunn Helga Garðarsdóttir skrifar
Ég heiti Þórunn Helga en allir kalla mig Tótu. Ég er búin að vera félagi í Klúbbnum Geysi í níu ár.

Að gerast félagi í Klúbbnum Geysi bjargaði lífi mínu.

Ég var búin að loka mig inni og sængin var besti vinur minn. Ég sá engan tilgang og mig langaði bara að deyja. Ég óskaði þess oft að ég mundi ekki vakna aftur þegar ég sofnaði.

Ég var búin að vera í iðjuþjálfun inni á geðdeild í smá tíma og var mér bent á Klúbbinn Geysi þar. Fyrst hélt ég að Klúbburinn Geysir væri ekki fyrir mig en það var bara hræðslan við að koma á nýjan stað og hitta nýtt fólk. Ég var orðin mjög félagsfælin en ég ákvað að koma í kynningu og skoða.

Það var tekið vel á móti mér þegar ég kom og mér leist vel á, ég ákvað að gerast félagi strax og byrja fljótlega. Þarna fékk ég tilgang til að vakna og fara á fætur. Klúbburinn Geysir er fyrir alla sem hafa átt eða eiga við geðraskanir að stríða og allir fá sama hlýja viðmótið.

Ef ég hafði ekki mætt í smá tíma þá var hringt í mig og spurt um mig, hvort væri ekki allt í lagi og hvort ég ætlaði ekki að koma. Með hjálp Geysis fékk ég trú og von.

Ég var búin að vera félagi í eitt ár þegar auglýst var RTR-starf (Ráðning til reynslu) í Hagkaupum, sem ég sótti um og var ég þar í um níu mánuði. Síðan fékk ég sjálfstæða ráðningu hjá Hagkaupum eftir að RTR lauk og ég var þar í um eitt ár og þá fór ég yfir í BYKO. Þar var ég í eitt og hálft ár, en þá skall kreppan á og ég missti vinnuna. Þetta var árið 2009 og við tók erfiður tími, sem endaði með því að ég fór í meðferð í september 2010. Ég er búin að vera laus við öll hugbreytandi efni og áfengi síðan.

Í dag er ég komin í vinnu á kassa í Krónunni og er að fara í verslunarfagnám í haust. Með hjálp Geysis fékk ég þor til að fara í nám.

Lífslíkur þeirra sem greinast með geðsjúkdóm eru 25 árum styttri en annarra. Klúbburinn Geysir er einn af bestu stöðunum til að hækka lífslíkur okkar í þeim hópi. Ég vil hvetja alla sem geta hugsað sér að leggja Klúbbnum Geysi lið til að heita á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu sem hlaupa fyrir klúbbinn minn.

Klúbburinn Geysir bjargaði mér og þakka ég klúbbnum fyrir það sem ég er í dag.




Skoðun

Sjá meira


×