Skoðun

Úr vörn í sókn

Hilmar Oddsson skrifar
Þær ánægjulegu fréttir bárust nýverið úr herbúðum ríkisstjórnarinnar að nú gætum við Íslendingar loks farið að rétta úr kútnum eftir allmörg mögur ár, botninum væri náð og fram undan væri betri, alltént skárri, tíð. Þjóðin hefur af skiljanlegum ástæðum verið í vörn síðan hún skoraði eitthvert eftirminnilegasta sjálfsmark sem nokkur þjóð hefur skorað á undanförnum áratugum.

Og þannig hefur það einnig verið hjá Kvikmyndaskóla Íslands (KVÍ). Ég kom til starfa við skólann haustið 2010 og frá fyrsta degi hefur taktíkin verið varnarleikur, gegn vilja okkar og metnaði, því við viljum leika sóknarleik og skora mikið af mörkum. Núna, tæpum tveimur árum síðar höfum við kannski einu sinni eða tvisvar komist yfir miðju og varla átt nema eitt skot á mark. Það var þegar við vorum formlega samþykkt í alþjóðasamtök 130 bestu kvikmyndaskóla heims, CILECT.

Það gerðist ekki á einni nóttu. Fyrst þurftum við að fara í gegnum ár reynsluaðildar, kollegarnir þurftu að tékka almennilega á okkur, hvort við værum samboðin samtökunum. Og viti menn, svo reyndist vera. Þrátt fyrir að við værum að reka einn ódýrasta kvikmyndaskóla Evrópu. Þrátt fyrir að aðstandendur skólans gætu ekki sýnt fram á örugga framtíð í verndarskjóli ríkisvaldsins. Þrátt fyrir ótal óvissuþætti í rekstri og ákveðna fordóma leikra sem lærðra.

Við vorum boðin velkomin í samtökin vegna þess að erlendir félagar okkar dáðust af dirfsku okkar og baráttuþreki. Einhverjir myndu eflaust segja fífldirfsku, en útlendingarnir sáu fyrst og fremst skóla sem framleiddi meira magn af frambærilegum nemendaverkum en margir skólar sem eru stærri, eldri og ríkari. KVÍ er auðvitað engan veginn eini kvikmyndaskólinn í álfunni sem hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum. Eitt af hlutverkum CILECT er að styðja við og standa vörð um gæði kvikmyndamenntunar. Þeir vita auðvitað að hagsæld og ríkidæmi er engin trygging fyrir listrænum afrekum. En þeir vita jafnframt að af engu vex ekkert. Þeir vissu að hin ört vaxandi list- og atvinnugrein sem kvikmyndagerðin er á Íslandi þyrfti sterkt bakland, frjóa jörð. Og þeir treystu KVÍ til að vera sá jarðvegur.

Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu sýnt að þau gera sér fulla grein fyrir mikilvægi kvikmyndagerðar fyrir íslenskt þjóðarbú. Þingmenn hafa lofað þennan umhverfisvæna og ört vaxandi tekjustofn. Enda má segja að uppskera af vinnu íslenskra sem erlendra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi lendi fyrst og fremst í vasa ferðaþjónustunnar, hjá flugfélögum, verslunum og almennri þjónustustarfsemi, svo ekki sé minnst á þær tekjur sem ríkið fær í formi skatta. Og það er vel. En það er reyndar synd að ávöxtur erfiðisins lendir einna síðast í vasa þeirra sem skópu verðmætin, kvikmyndagerðarfólksins sjálfs.

Þetta horfir þó til bóta – að flestu leyti: Það gleymdist því miður að gera ráð fyrir undirstöðunni, menntuninni sjálfri. Að vísu er hópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins að skila skýrslu um framtíðarskipan kvikmyndamenntunar á Íslandi á næstu dögum, og það verður fróðlegt að sjá hverjar tillögur þeirra verða. En á meðan við bíðum hangir framtíð eina starfandi kvikmyndaskóla landsins í algerri óvissu. Skóla sem hefur borið hróður íslenskrar kvikmyndagerðar langt út fyrir landsteinana. Skóla sem hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og er um þessar mundir að fagna tuttugu ára afmæli.

Það væri sannarlega stórmannleg og glæsileg gjöf skólanum og kvikmyndagerðinni á Íslandi til handa, ef menntamálaráðherra myndi á næstunni bjóða skólanum þjónustusamning til nokkurra ára, samning sem gerði skólanum kleift að starfa með eðlilegum hætti, að mennta fólk sem stenst aljóðlegar kröfur um fagleg vinnubrögð, að snúa vörn í sókn, og koma boltanum loks yfir miðju og (við eigum nefnilega öfluga markaskorara) skora glæsileg mörk sem koma Íslandi endanlega á blað.




Skoðun

Sjá meira


×