Skoðun

Tillögur Stjórnlagaráðs ónýtar?

Júlíus Valdimarsson skrifar
Í Búsáhaldabyltingunni var krafist nýrrar stjórnarskrár sem samin yrði í anda fólksins. Tillögur Stjórnlagaráðs eru ekki nothæft svar við þessari kröfu.

Fólkið krafðist valdaÞað klingja enn í eyrum mér kröfur fólksins á Austurvelli um völdin til fólksins og um öðruvísi fjármálakerfi sem hætti að kúga okkur og stjórna. Ég man líka köllin eftir nýrri stjórnarskrá sem fólkið myndi skrifa. Þetta fór á annan veg; stjórnmálamennirnir gripu þessa hugmynd og leikstýrðu framvindunni.

Fræga fólkið samdi tillögurnarTalið var að ef allir fengju að bjóða sig fram myndi verða til þverskurður af þjóðinni sem semja myndi tillögur að nýrri stjórnarskrá í þágu fólksins. Þeir sem náðu kjöri voru hins vegar að mestu þjóðþekktir álitsgjafar, fræðimenn og annað frægt fólk, auk flokksgæðinga. Hinn almenni óþekkti maður átti undir högg að sækja og fáir slíkir hlutu kosningu.

Málskotsréttur þjóðarinnar takmarkaðurÚtkoman er í samræmi við þetta. Í tillögunum er ekki stafkrókur sem verndar fólkið fyrir yfirgangi og kúgun fjármálakerfisins og málskotsréttur þjóðarinnar er takmarkaður í grundvallarmálefnum. Í tillögunum segir m.a.: „Á grundvelli þeirra (greinanna sem fjalla um málskotsrétt fólksins) er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“ Samkvæmt þessum tillögum hefði almenningur ekki getað krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

Niðurlæging fyrir fólkið í landinuÍ 26. grein stjórnarskrárinnar eru engar takmarkanir á þeim lögum eða málefnum sem forsetinn getur vísað til þjóðarinnar. Engin haldbær rök eru fyrir því að skerða rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu frá þeim rétti sem forsetinn hefur nú. Það er mikil forneskja og niðurlægjandi fyrir fólkið í landinu að ætla einum manni meira vald en heilli þjóð.

Málskotsrétturinn í hættuÁkvæðin um málskotsrétt þjóðarinnar í tillögum stjórnlagaráðs skapa áhættu ef samþykktar verða. Í framhaldi af þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti þingið að semja nýja stjórnarskrá sem samþykkja þarf með auknum meirihluta. Á Alþingi er ekki mikill áhugi á beinu lýðræði og oft heyrast raddir stjórnmálamanna um að takmarka þurfi valdheimildir forsetans. Hætt er við að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar myndu nota nýja ákvæðið um málskotsrétt fólksins sem skálkaskjól til að fella niður málskotsrétt forsetans þar sem þjóðin hefði sjálf fengið og samþykkt slíkan rétt.

Þjóðin móti eigið lífHúmanistaflokkurinn leggur til að hafið verði ferli borgaraþinga og þjóðfunda hið fyrsta þar sem fulltrúar eru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Á þessum vettvangi ræði þjóðin hvernig samfélag hún vill búa sér og hvernig stjórnarskrá hentar þeirri sýn. Tillögur fólksins fari í þjóðaratkvæðagreiðslu sem verði bindandi, ekki ráðgefandi. Aðeins með því að þjóðin skrifi sjálf sína stjórnarskrá mun nást sú þjóðarsátt sem þarf að ríkja um hana.




Skoðun

Sjá meira


×