Skoðun

Að vakna sjaldnar vegna Sagapro

Ingvi Hrafn Jónsson skrifar
Sennilega eru sjö ár frá þvi að vinur minn, Þráinn Þorvaldsson, stakk að mér tveimur glösum af pillum, sem dr. Sigmundur Guðbjarnarson, hafði sett saman úr ætihvönninni og kallaði Sagapro. Taktu eina eða tvær á dag. Gæti gert þér gott, sagði Þráinn og kvaddi.

Það var svo sem ekkert að mér, en ég hugsaði með mér að eitthvað úr ætihvönninni, sem var mér svo kær af bökkum Laxár í Aðaldal, gæti bara verið til góðs.

Nokkrum dögum seinna, kannski viku til tíu dögum, vaknaði ég og leið svona rosalega vel, úthvíldur og bókstaflega dæsti af vellíðan. Spratt fram úr og gekk að störfum dagsins. Þessi morgunvellíðan hélt áfram næstu daga og konan mín var farin að velta fyrir sér hvað hefði eiginlega komið fyrir kallinn.

Rann svo allt í einu upp fyrir mér, að ástæðan fyrir þessu öllu var afar einföld, ég svaf nú allar nætur án þess að vakna 4-5 sinnum til að pissa. Hafði ekki gert mér grein fyrir því að það væri eitthvað óvenjulegt að vakna svo oft, hafði gert það frá miðjum sextugsaldri. Hafði aldrei hugsað út í að ég væri með stækkaðan blöðruhálskirtil, sem orsakaði þessi öru næturþvaglát.

Lífsgæðabatinn var hreint ótrúlegur og ég sagði frá þessu á Hrafnaþingi og fékk þá Þráinn, dr. Sigmund og Sigurð Steinþórsson í viðtöl. Þeir voru afar varkárir, en höfðu fengið jákvæð viðbrögð frá mörgum. Þessi viðtöl vöktu mikla athygli, símtölin hreinlega helltust yfir mig frá körlum og ekki síður eiginkonum, sem höfðu eins og mín frú vaknað mörgum sinnum á nóttu vegna bröltsins í körlunum.

Ég hef verið iðinn við að útbreiða þetta Sagapro fagnaðarerindi síðan og hef ekki tölu á þeim sem hafa þakkað fyrir og dásamað kjarkinn að tala um eitthvað „svo viðkvæmt“ eins og það að vera sípissandi allar nætur. Ég giska á að Sagapro hafi gert fjórum af hverjum fimm gott. En það vantaði sannanir fyrir virkni og loksins tókst að afla fjár, 30 milljóna króna, til að kosta faglegar klíniskar rannsóknir og reyna að fá niðurstöðurnar birtar í vísindariti.

Tveggja ára spennuþrungin bið er á enda, rannsóknirnar staðfestu það sem ég og þúsundir annarra höfum vitað, Sagapro svínvirkar. Nú eru öflugir fjárfestar komnir að Sagamedica, tilbúnir að fjármagna útrás á vöru úr hreinni íslenskri náttúruauðlind, þróuð af einum fremsta vísindamanni eyjunnar bláu.

Stóru lyfjarisarnir hafa löngum stundað það að fá leigupenna til að níða skóinn af aðilum, sem hafa reynt að koma vörum á markað, sem gætu keppt við eitthvað sem þeir höfðu kannski eytt milljörðum í að þróa og markaðssetja. Nú veit ég ekkert um lyfjafræðinginn fúla sem rauk fram á ritvöllinn með fúkyrðaflaumi daginn eftir að góðu fréttirnar bárust. Vonandi var hann bara úrillur eftir margar pissuferðir þá nóttina. Ég ætla að senda honum tvo kassa af Sagapro, gætu gert honum gott.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×