Skoðun

Þegar rannsókn spillist

Páll Rúnar M. Kristjánsson skrifar
Nýverið bárust fregnir af því að rannsakendur í tilteknu sakamáli hefðu þegið fé fyrir rannsókn málsins frá ótengdum aðila. Embætti sérstaks saksóknara, sem hafði málið með höndum, kærði athæfi þetta til ríkislögreglustjóra. Hér á eftir verður ekki fjallað sérstaklega um afdrif þessa tiltekna máls þó það sé tekið til skoðunar í dæmaskyni. Öðru fremur er tilgangur þessara stuttu skrifa að velta upp þeirri spurningu hvort atvik af þessu tagi spilli rannsókn sakamála.

Málið vekur nefnilega óneitanlega upp áleitnar spurningar um hvaða áhrif það hefur á framvindu sakamáls að rannsakendur þiggi laun fyrir rannsókn málsins úr hendi einkaaðila. Þegar svara á spurningum af þessu tagi verður fyrst og fremst að skoða málið út frá þeim sjónarmiðum sem vega þyngst við meðferð sakamála. Réttindi sakborninga í málinu skipta þar miklu máli, en þeir njóta stjórnarskrárvarins réttar til réttlátrar málsmeðferðar. Sá réttur telst til grundvallarmannréttinda í hverju lýðræðisríki og er meðal annars tryggður í Mannréttindasáttmála Evrópu.

Reglur um réttláta málsmeðferð geta verið snúið viðfangsefni og margþætt. Reglunum er meðal annars ætlað það hlutverk að vernda sakborninga en það verður oft til þess að þær koma almenningi fyrir sjónir sem óþarfa hindranir á vegi réttvísinnar. Þetta á sérstaklega við þegar meint brot eru siðferðislega mjög ámælisverð eða varða mikla almannahagsmuni. Í þeim tilfellum ber meira á því viðhorfi að rétt sé að láta mannréttindi sakbornings víkja fyrir öðrum og betri rétti samfélagsins til að sjá að einhverjum sé refsað. Það er hins vegar undir þessum kringumstæðum sem mest reynir á umrædd mannréttindi og þá sem um þau vilja standa vörð.

Það er einn af hornsteinum réttlátrar málsmeðferðar að rannsókn máls á hendur sakborningi sé unnin af óvilhöllum og sjálfstæðum aðila. Þessum rannsóknaraðila ber að sýna hlutlægni við störf sín og vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós. Þetta felur það í sér að rannsaka ber jafnt það sem horfir til sektar og sýknu en sá réttur er tryggður í lögum um meðferð sakamála og Mannréttindasáttmála Evrópu. Til að ákvarða hvort svo sé í pottinn búið er litið til þess hvort sakborningur hafi réttmæta ástæðu til að draga í efa að rannsóknaraðili hafi verið óvilhallur og sjálfstæður eða að rannsókn á máli hans hafi verið sjálfstæð og fagleg.

Réttlát málsmeðferð skal ekki einvörðungu verða laus við ómálefnaleg sjónarmið, hún má heldur ekki bera það með sér að sakborningur megi með réttu efast um að mál hans hafi fengið réttláta meðferð. Það er því ljóst að ekki má vera fyrir hendi nein raunveruleg ástæða til þess að draga í efa óhlutdrægni og sjálfstæði rannsakenda. Mannréttindadómstóll Evrópu áréttaði þetta sjónarmið í Delcourt málinu svokallaða frá 17. janúar árið 1970 þar sem fram kom: ?Justice must not only be done: it must also be seen to be done?. Það rúmast því ekki innan réttlátrar málsmeðferðar að komist sé að lögmætri niðurstöðu með ólögmætum hætti. Gagnsæi og réttmæti verður að einkenna allan framgang réttvísinnar.

Í því máli sem upp kom nýverið virðast atvik hafa verið með þeim hætti að rannsakendur hafi þegið umtalsverðar greiðslur frá þrotabúi fyrirtækisins sem fékk lánveitinguna sem um var deilt í málinu. Markmið þrotabúsins var að öllum líkindum að nýta rannsóknargögnin til stuðnings hugsanlegum bótakröfum búsins. Þrotabúið hefur því umtalsverða fjárhagslega hagsmuni af því að rannsóknin sýni fram á að saknæm og refsiverð háttsemi hafi valdið búinu fjártjóni. Það liggur í hlutarins eðli að ákveðin niðurstaða málsins væri þrotabúinu, sem greiðir rannsakendum milljónir króna, hagfelldari en önnur.

Atvik málsins eru með þeim hætti að ekki er hafið yfir sanngjarnan vafa að rannsakendur hafi verið hlutlausir í störfum sínum. Sakborningur má með réttu draga það í efa að rannsakendur hafi rannsakað jafnt það sem beinist að sekt og sýknu þar sem rannsakendur þáðu fé frá aðila sem hafði hagsmuni af ákveðinni fyrirframgefinni niðurstöðu. Með hliðsjón af framangreindri reglu um að réttlætið verði að vera bæði raunverulegt og sýnilegt verða sakborningar málsins ekki með réttu sóttir til saka á grundvelli slíkrar rannsóknar.

Nú kunna einhverjir að vera ósammála þessari niðurstöðu og vilja leggja önnur rök til grundvallar. Ég hvet hins vegar til þess að horft sé hlutlægt á málavexti og viðkomandi réttarreglur án þess að láta það hafa áhrif hver eða hverjir áttu hlut að máli. Í þessu samhengi getur verið hjálplegt að athuga hvort niðurstaðan væri sú sama ef aðrir ættu í hlut. Þá getur einnig verið gagnlegt að snúa hlutverkunum við og sjá hvort niðurstaðan væri enn sú sama.

Hvaða áhrif hefði það til dæmis ef sjálfur sakborningurinn greiddi rannsakendum í máli sínu laun? Væru rannsakendur enn hæfir til verksins eftir að hafa þegið slíka greiðslu? Teldi einhver að slík málsmeðferð stæðist kröfur réttarríkisins? Nei, líklega ekki. Sú niðurstaða grundvallast á því að sá sem greiðir rannsakandanum hefur sjálfstæða hagsmuni af ákveðinni niðurstöðu í málinu sem kann að vera önnur en hin rétta. Það er því raunhæf hætta á að þessir hagsmunir smitist yfir í niðurstöðu rannsóknarinnar. Í þessu sambandi er rétt að ítreka að það nægir að efast megi um réttmæti rannsóknarinnar sjálfrar óháð endanlegri niðurstöðu hennar.

Það er andstætt grundvallarhugmyndum um réttlæti og réttláta málsmeðferð að dómur í sakamáli sé byggður á rannsókn sem hefur spillst með þeim hætti sem lýst er hér að framan. Það þarf því engum að koma á óvart þegar umræddu máli verður vísað frá dómi. Að fenginni þeirri niðurstöðu má svo, eftir atvikum, endurtaka rannsókn málsins með lögmætum hætti og freista þess að ákæra á ný. Aldrei má láta kappið bera réttvísina ofurliði.




Skoðun

Sjá meira


×