Viðskipti innlent

Draga þarf úr halla lífeyrissjóðakerfisins

Höfðatorgi í gær Þau Björn Z. Ásgrímsson sérfræðingur, Unnur Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri, og Halldóra E. Ólafsdóttir framkvæmdastjóri fjölluðu um stöðu lífeyrissjóðakerfisins á fundi með blaðamönnum í gær.Fréttablaðið/Valli
Höfðatorgi í gær Þau Björn Z. Ásgrímsson sérfræðingur, Unnur Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri, og Halldóra E. Ólafsdóttir framkvæmdastjóri fjölluðu um stöðu lífeyrissjóðakerfisins á fundi með blaðamönnum í gær.Fréttablaðið/Valli
Íslenska lífeyrissjóðakerfið er öflugt en glímir þó við ákveðna veikleika. Þetta er mat Fjármálaeftirlitsins (FME) sem kynnti samantekt á stöðu lífeyrissjóðanna fyrir fjölmiðlum á skrifstofu sinni í turninum við Höfðatorg í gær. Þá hvetur FME til þess að dregið verði úr halla í lífeyriskerfinu með því að hækka iðgjöld, skerða réttindi sjóðsfélaga eða hækka lífeyrisaldur.

Heildareignir lífeyrissjóðanna voru 2.230 milljarðar króna í lok síðasta árs sem jafngildir tæpum þriðjungi af heildareignum eftirlitsskyldra aðila á fjármálamarkaði, það er banka, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs, verðbréfasjóða og vátryggingafélaga.

Hlutfall heildareigna lífeyrissjóðanna af vergri landsframleiðslu var í lok síðasta árs 137% sem er nánast sama tala og var í lok árs 2007. Eignir lífeyrissjóðanna minnkuðu um rúman fimmtung á árinu 2008 en hafa vaxið síðan. Sem hlutfall af landsframleiðslu er íslenska lífeyrissjóðakerfið því hið næststærsta í Evrópu á eftir því hollenska.

Langstærstur hluti eigna lífeyrissjóðanna er vegna skyldusparnaðar einstaklinga eða 1.889 milljarðar. Um 209 milljarðar eru vegna séreignarsparnaðar lífeyrissjóðanna og 132 milljarðar vegna séreignarsparnaðar hjá fjármálafyrirtækjum, líftryggingarfélögum og erlendum aðilum.

Fimm stærstu lífeyrissjóðir landsins; Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV), Gildi lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Sameinaði lífeyrissjóðurinn, eru sem fyrr risar í kerfinu en samanlagt mynda sjóðirnir fimm 54,8% af kerfinu sé miðað við hreina eign.

Þrátt fyrir miklar eignir er tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðakerfisins neikvæð um háar fjárhæðir en tryggingafræðileg staða þeirra segir til um hversu vel eignir þeirra duga fyrir skuldum þegar tekið er tillit til allra eigna og skulda, bæði áfallinna sem og þeirra sem vænt er að verði til í framtíðinni. Staðan er því mælikvarði á styrk sjóðanna og gefur sem slíkur mun betri mynd af raunverulegri stöðu lífeyrissjóðanna en eignastaða þeirra. Sé staðan neikvæð er ljóst að sjóðirnir hafa ekki getu til þess að standa við allar skuldbindingar sínar. Þar með þarf að óbreyttu að hækka iðgjöld þeirra, minnka réttindi sjóðsfélaga eða hækka lífeyrisaldur, eða þá velja blöndu af þessu þrennu.

Unnur Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri FME, sagði mjög brýnt að draga úr tryggingafræðilegum halla, sérstaklega hjá lífeyrissjóðum ríkisins og sveitarfélaga. Hún bætti þó við að þegar upp væri staðið væri það pólitísk spurning að hve miklu leyti opinberu lífeyrissjóðirnir eigi að vera annars vegar sjóðasöfnunarsjóðir og hins vegar gegnumstreymissjóðir. Að mati FME sem eftirlitsaðila sé skynsamlegra að leggja áherslu á sjóðasöfnun en þegar opinberir aðilar þurfa að greiða með sjóðunum eru sjóðirnir í raun orðnir gegnumstreymissjóðir að hluta.

Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðakerfisins var í lok síðasta árs neikvæð um alls 668 milljarða króna sem jafngildir 17,1% af kerfinu. Munar mestu um stöðu LSR en tryggingafræðileg staða hans er neikvæð um ríflega 430 milljarða króna.

Tryggingafræðilega staðan versnaði um 17 milljarða á milli ára en sem hlutfall af kerfinu hefur staðan batnað nokkuð síðustu misseri en hún var til dæmis neikvæð um 20,8% í lok árs 2009.

Stafar betri staða þó ekki af góðri ávöxtun sjóðanna heldur því að lífeyrissjóðir án ábyrgðar launagreiðenda hafa skert réttindi sjóðsfélaga um 130 milljarða króna hið minnsta frá hruni.

Almennt er tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð launagreiðenda mun verri en hinna þar sem engin slík ábyrgð er til staðar. Tólf af þeim 33 lífeyrissjóðum sem eru undir eftirliti FME njóta ábyrgðar launagreiðenda en í öllum tilfellum er um að ræða lífeyrissjóði starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Felur ábyrgðin í sér að þessir opinberu aðilar þurfa að hlaupa undir bagga með sjóðunum geti þeir ekki staðið við skuldbindingar sínar. Allir sjóðirnir tólf hafa neikvæða tryggingafræðilega stöðu á bilinu 22,9% til 99,4%.

Af hinum almennu sjóðum eru einungis þrír með jákvæða tryggingafræðilega stöðu; Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Búnaðarbanka Íslands og Lífeyrissjóður tannlækna. Allir aðrir sjóðir eru með neikvæða stöðu á bilinu 0,4% til 13,1%.

Samkvæmt núgildandi lögum má hallinn á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða án ábyrgðar launagreiðenda ekki vera hærri en 15% í eitt ár eða 10% í fimm ár en ella þarf að lækka réttindi sjóðsfélaga. Miðað við stöðu sjóðanna í árslok 2011 þarf því enginn að minnka réttindi um sinn.

Hins vegar er ekki leyfilegt samkvæmt lögum að skerða réttindi sjóðsfélaga í opinberu lífeyrissjóðunum og því eina leiðin til að laga tryggingafræðilega stöðu þeirra sú að hækka iðgjöld að óbreyttum lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×