Skoðun

Yfirvegun í lyfjaumræðunni

Jakob Falur Garðarsson skrifar
Undanfarna daga hefur umræðan um skaðlegar aukaverkanir lyfja verið fyrirferðarmikil í fjölmiðlum. Auk þess hefur einnig verið fjallað um óhefðbundnar lækningar í baráttunni við krabbamein og jafnvel leitt að því getum að þau krabbameinslyf og meðferðarúrræði sem einstaklingum, sem greinast með þennan vágest, stendur til boða sé hægt að kasta fyrir róða.

Í allri umfjöllun um lyfjaiðnaðinn og lyfjanotkun er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir aðalatriðinu. Það sem mestu máli skiptir fyrir okkar samfélag er að við viðurkennum mikilvægi þess að vera tilbúin til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum. Þegar til lengri tíma er litið þá er það fjárhagslegur ávinningur fyrir samfélagið í heild sinni að fjárfesta í vísindum, rannsóknum og lyfjaprófunum, þ.e. heilbrigðiskerfinu, einum af mikilvægustu málaflokkum þess velferðarþjóðfélags sem er okkur öllum svo mikilvægt. Annað var ekki að skilja á Jóhönnu Sigurðardóttur á fundi sem fór fram í Lofoten í Noregi fyrr í vor með forsætisráðherrum annarra norrænna ríkja. Lokaályktun þess fundar var að nauðsynlegt væri fyrir Norðurlöndin öll að renna styrkari stoðum undir lýðheilsu og heilbrigði þegna sinna. Mikilvægt sé að Norðurlönd tapi ekki þeirri forystu sem þau hafa haft í álfunni þegar kemur að því að veita þegnum sínum öryggi í heilbrigðismálum.

Aukaverkanir af lyfjum geta verið alvarlegt mál sem bæði læknar og starfsfólk heilbrigðisstétta eru meðvitaðir um. Það hlýtur að vera markmið þeirra, sem taka þátt í og stuðla að lyfjaþróun, að lágmarka skaðsemi aukaverkana eins mikið og mögulegt er. Nauðsynlegt skref í átt að því er sameiginlegur vilji starfsfólks í heilbrigðiskerfinu, lyfjafyrirtækja, vísindasamfélagsins og stjórnvalda til að renna styrkari stoðum undir velferðarkerfið. Öflugasta verkfærið til þess er fjárfesting í heilbrigðiskerfinu.

Frumtök telja umræðu um lyf og lyfjanotkun vera af hinu góða. Þegar öllu er á botninn hvolft stuðla lyf að því að tugmilljónir einstaklinga geti lifað við sjúkdóm sinn á þann hátt að hann raskar lífi þeirra eins lítið og mögulegt er. Vissulega geta aukaverkanir verið alvarlegar, en í stað þess að kasta vopnum okkar í baráttunni við alvarlega sjúkdóma væri nær að efla þau og styrkja með auknum rannsóknum og fjárveitingum til að við öll getum lifað eins heilbrigðu og góðu lífi og lækna- og lyfjavísindin gera okkur kleift á hverjum tíma.




Skoðun

Sjá meira


×