Erlent

Dæmdur vegna hryðjuverka á Balí

Lögreglumenn leiddu Patek út úr réttarsalnum í Djakarta eftir að dómur féll.
FréttablaðiÐ/AP
Lögreglumenn leiddu Patek út úr réttarsalnum í Djakarta eftir að dómur féll. FréttablaðiÐ/AP
Umar Patek, 45 ára meðlimur í Al-Kaída hryðjuverkasamtökunum var á fimmtudag dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að hafa smíðað bílsprengju sem notuð var til að sprengja skemmtistað á indónesísku eyjunni Balí árið 2002. Alls létust 202 í sprengingunni, þar á meðal 88 Ástralar og sjö Bandaríkjamenn.

Saksóknarinn í málinu hafði farið fram á lífstíðarfangelsi yfir Patek en hann var ákærður fyrir morð, brot á innflytjendalöggjöf, að hafa haldið hlífiskildi yfir hryðjuverkamönnum og að hafa haft ólögleg vopn undir höndum.

Hlaut Patek refsingu vegna árásanna á Balí en einnig fyrir þátttöku í hryðjuverkaárásum sem gerðar voru á kirkjur í Djakarta á aðfangadag árið 2000 og urðu nítján að bana.

Patek var handtekinn á síðasta ári í Pakistan, í sama bæ og Osama bin Laden faldi sig í síðustu ár ævi sinnar. Hann hafði þá verið í felum í níu ár en hann var sá síðasti þeirra sem grunaðir voru um þátttöku í hryðjuverkunum sem tekinn var höndum.

Í vörn sinni lagði Patek áherslu á að hann hefði ekki leikið stórt hlutverk í smíði sprengjunnar þótt hann hefði vissulega tekið þátt. Þá bað hann fjölskyldur fórnarlambanna sem og stjórnvöld í Indónesíu afsökunar og sagðist hafa verið á móti árásunum. Á hann hefði hins vegar ekki verið hlustað.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×