Erlent

Samaras orðinn forsætisráðherra

Antonis Samaras sór embættiseið í forsetahöllinni í Aþenu í gær.
Antonis Samaras sór embættiseið í forsetahöllinni í Aþenu í gær. fréttablaðið/ap
Antonis Samaras sór í gær embættiseið sem forsætisráðherra Grikklands. Flokkur hans, Nýi lýðræðisflokkurinn, myndaði stjórn með sósíalistaflokknum Pakos og Lýðræðislega vinstriflokknum. „Ég bið nýja ríkisstjórn, sem verður mynduð á morgun [í dag], að leggja hart að sér svo við getum veitt fólkinu okkar áþreifanlega von," sagði Samaras í gær. Hann er fjórði forsætisráðherra Grikkja á 8 mánuðum.

Flokkarnir þrír styðja allir björgunaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins, sem felur í sér mikinn niðurskurð á mörgum sviðum. Flokkarnir hafa þó lýst því yfir að þeir vilji semja við AGS og ESB á nýjan leik um skilmálana. Samaras hefur til dæmis sagst vilja lækka skatta og koma hagkerfinu af stað á ný.

Hinir flokkarnir tveir hafa talað fyrir tveggja ára framlengingu á frestum sem ríkið hefur fengið til að skera niður. Fotis Kouvelis, leiðtogi Lýðræðislega vinstriflokksins, segir Grikki á endanum eiga að losa sig undan skuldbindingunum. Búist er við að markaðir taki fagnandi myndun ríkisstjórnar.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×