Erlent

Óttast að verða framseldur til Bandaríkjanna

Lögreglumenn vakta nú sendiráð Ekvadors í Lundúnum. Auk þeirra hefur fjöldi blaðamanna og ljósmyndara tekið sér stöðu fyrir utan.
Lögreglumenn vakta nú sendiráð Ekvadors í Lundúnum. Auk þeirra hefur fjöldi blaðamanna og ljósmyndara tekið sér stöðu fyrir utan. nordicphotos/afp
Julian Assange, forsprakki Wikileaks, verður handtekinn ef hann yfirgefur sendiráð Ekvadors í Lundúnum, þar sem hann dvelur. Meðan hann heldur sig þar inni getur breska lögreglan hins vegar ekkert aðhafst.

Assange kom í sendiráðið á þriðjudag og óskaði eftir pólitísku hæli í Ekvador. Verið er að fara yfir beiðni hans í Ekvador og á meðan fær hann að dvelja í sendiráðinu í Lundúnum.

Framselja á Assange til Svíþjóðar þann 28. júní þar sem hann á yfir höfði sér kærur vegna kynferðisbrota. Með því að dvelja yfir nótt í sendiráðinu braut hann skilorð, og verður því handtekinn ef hann yfirgefur sendiráðið. Lögreglumenn bíða þar fyrir utan.

Stuðningsmenn Assange segja hann óttast að hann verði framseldur til Bandaríkjanna og að þar verði hann dæmdur til langrar fangelsisvistar. Þá er hann sagður óttast um líf sitt.

Einn fyrrverandi lögmanna hans sagði hann mögulega vera að reyna að semja við sænsk stjórnvöld um að þau lofi að hann verði ekki framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna. Ef það gangi eftir muni hann mögulega fara sjálfviljugur til Svíþjóðar.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×