Erlent

Hleypi almennum borgurum út

Eftirlitsmenn við komuna frá al-Haffa til Damaskus á laugardag.
Eftirlitsmenn við komuna frá al-Haffa til Damaskus á laugardag. fréttablaðið/ap
Yfirmaður eftirlitssveita Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi krafðist þess í gær að stríðandi fylkingar leyfðu „konum, börnum, öldruðum og veikum“ að yfirgefa borgina Homs og önnur átakasvæði. Degi fyrr hafði hann tilkynnt að eftirlitsmennirnir hefðu hætt störfum vegna vaxandi ofbeldis í landinu.

Robert Mood sagði eftirlitsmennina hafa reynt að koma óbreyttum borgurum og særðu fólki út úr Homs undanfarna viku. Það hafi ekki tekist vegna þess að hvorki stjórnvöld né uppreisnarmenn vildu hætta átökum á meðan. Hann sagði báða aðila þurfa að endurskoða afstöðu sína. „Þetta krefst vilja beggja til að virða og vernda líf sýrlensku þjóðarinnar.“

300 eftirlitsmenn og rúmlega 100 aðrir starfsmenn SÞ hafa reynt að fylgja eftir friðaráætlun Kofi Annan undanfarið. Friðaráætlunin fól meðal annars í sér vopnahlé sem hefur ekki verið virt. Eftirlitsmennirnir hafa verið hindraðir í störfum sínum og ráðist hefur verið að þeim. Því var ákveðið að hætta aðgerðum í bili, en það verður endurmetið á hverjum degi. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×