Erlent

Varar við óhóflegri bjartsýni í Búrma

Aung San Suu Kyi Heldur til Evrópu síðar í mánuðinum, þar sem hún tekur meðal annars loks við Nóbelsverðlaunum sem henni voru veitt árið 1991.nordicphotos/AFP
Aung San Suu Kyi Heldur til Evrópu síðar í mánuðinum, þar sem hún tekur meðal annars loks við Nóbelsverðlaunum sem henni voru veitt árið 1991.nordicphotos/AFP
„Þessa dagana verð ég vör við það sem ég kalla glæfralega bjartsýni,“ sagði Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, í fyrstu ræðu sinni á alþjóðavettvangi sem hún hélt í Taílandi í gær.

„Ég tel að smá skammtur af heilbrigðri tortryggni væri ekki úr vegi,“ bætti hún við.

Hún hefur setið í stofufangelsi í Búrma megnið af síðustu tuttugu árum en var látin laus á síðasta ári eftir að mannaskipti urðu í æðstu stöðum herforingjastjórnar landsins.

Vesturlönd, með Bandaríkin í fararbroddi, hafa tekið sinnaskiptum Búrmastjórnar fagnandi. Refsiaðgerðum hefur verið aflétt og boðaður er margvíslegur stuðningur við landið.

Suu Kyi lagði áherslu á að erlend fyrirtæki, sem hafa í hyggju að fara út í fjárfestingar í Búrma, gæti þess að fara varlega og hafa allt uppi á borðunum.

„Við viljum ekki að auknar fjárfestingar þýði meiri möguleika á spillingu,“ sagði hún í ræðu sinni í Taílandi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×