Erlent

Segja Rússa stuðla að borgarastríði

Á mótmælafundi í bænum Kfarnebel flykktist fólk að bifreið friðargæslumanna Sameinuðu þjóðanna.Fréttablaðið/AP
Á mótmælafundi í bænum Kfarnebel flykktist fólk að bifreið friðargæslumanna Sameinuðu þjóðanna.Fréttablaðið/AP
„Þeir eru að segja mér að þeir vilji ekki sjá borgarastríð. Ég hef verið að segja þeim að stefna þeirra muni hjálpa til við að stuðla að borgarastríði,“ sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um afstöðu Rússa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Rússar hafa, eins og Kínverjar, verið andvígir því að öryggisráðið heimili ríkjum Sameinuðu þjóðanna að beita hervaldi eða annars konar beinni íhlutun í málefni Sýrlands. Bæði Rússar og Kínverjar ítrekuðu þessa afstöðu sína í gær.

Clinton brást við með því að gagnrýna harðlega afstöðu beggja ríkjanna.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir mikla hættu á því að borgarastríð hefjist með algjöru öngþveiti í Sýrlandi, nú í kjölfar fjöldamorðanna í Houla á föstudag. Meira en hundrað manns létu þar lífið, bæði í sprengjuárásum stjórnarhersins og þegar vígasveitir, sem stjórnarherinn hefur stundum fengið til liðs við sig, gengu hús úr húsi og myrtu fólk.

Í gær gerði stjórnarherinn síðan aftur árás á Houla.

Hafi einhverjir haft í upphafi trú á friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins, sem Kofi Annan fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var fenginn til að þrýsta á um, þá virðist sú trú fokin út í veður og vind.

Vopnahléð, sem bæði Sýrlandsstjórn og uppreisnarherinn hétu að virða, hefur að mestu verið nafnið eitt, þótt hugsanlega hafi sveitir beggja eitthvað haldið aftur af sér vegna þess.

Qassim Saadeddine, herforingi í herliði uppreisnarmanna í Homs, sagði í gær að stjórnarherinn hafi frest þangað til í dag til að leggja niður vopn samkvæmt því sem um var samið. Að öðrum kosti telji uppreisnarmenn sig ekki þurfa að virða vopnahléð heldur.

Riyad Assad, yfirmaður uppreisnarsveitanna, bar þetta hins vegar fljótlega til baka og sagði stjórnarhernum ekki hafa verið settur neinn frestur. Einnig ítrekaði hann að uppreisnarmenn telji sig bundna af vopnahléssamkomulaginu.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×