Skoðun

Kostnaður hagsmunaaðila í stjórnmálabaráttu

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Eftir baráttu ýmissa vinstrimanna fyrir upplýsingaskyldu og hámörkum á fjárframlög til stjórnmálastarfsemi voru loks samþykkt lög þar að lútandi árið 2006. GRECO-nefnd Evrópuráðsins (um pólitíska spillingu) hafði ítrekað sent íslenskum stjórnvöldum aðfinnslur og Jóhanna Sigurðardóttir flutt fjölda þingsályktunartillagna um málið. Þeir sem sáu um fjársafnanir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks höfðu barist gegn slíkum lögum í nafni stjórnarskrárákvæða um tjáningar- og félagafrelsi, en gáfust loks upp.

Markmið laganna frá 2006 er að koma í veg fyrir spillingu, að fjársterkir aðilar geti ráðið frambjóðendum, niðurstöðum kosninga og málefna, en rannsóknir staðfesta áhrif fjármagns, þó fleira komi til.

Nú er uppi ný staða sem þarfnast umræðu. Síðastliðin 15 ár hafa hagsmunaaðilar í æ ríkari mæli blandað sér í kosningabaráttu, stillt flokkum og frambjóðendum upp við vegg í aðdraganda kosninga og þannig skert lýðræðislegan hlut almennings og þeirra kjörnu fulltrúa. Síðastliðna mánuði hefur þetta náð nýjum hæðum með milljónatuga auglýsingaherferð hagsmunaaðila gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Um stjórnmálastarfsemi hagsmunaaðila gilda ekki lög um upplýsingaskyldu eða hámark á framlög. Í Bandaríkjunum kljást stjórnmálamenn við sama vanda. Þar hafa frá 1970 gilt lög um upplýsingaskyldu og takmarkanir á fjárframlög til flokka og frambjóðenda. En fjársterkir aðilar hafa fundið hjáleiðir og eyða í dag (í gegnum svonefnd Super PACs og 501c4 samtök) hærri upphæðum til áhrifa á stjórnmálastarfsemi en flokkarnir og frambjóðendur sjálfir. Upphæðum sem hafa margfaldast á síðustu árum. Að baki eru einstaklingar, fyrirtæki eða samtök. Þar eins og hér er ekkert hámark, en loðin upplýsingaskylda, sem auðvelt er að sniðganga. Þingmenn demókrata hafa án árangurs reynt að takmarka þetta, gegn atkvæðum repúblikana. (Economist 25.2.2012). Mikilvægt er að ræða hvernig bregðast skal við þessu, þó ljóst sé að setning reglna um þetta sé snúnari en um fjárreiður flokka og frambjóðenda. Jafnljóst er að við viljum ekki á Íslandi lýðræði og skoðanamyndun sem ræðst af fjármagni.




Skoðun

Sjá meira


×