Skoðun

Lyktarmengun kallar á tafarlausar aðgerðir

Sigrún Pálsdóttir skrifar
Nýverið var haldinn íbúafundur í Mosfellsbæ um lyktarmengun frá urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi. Niðurstaða fundarins var einhlít. Við óbreytt ástand verður ekki unað og aðgerða þörf án tafar.

Byggðasamlag sveitarfélaga um sorpeyðingu á höfuðborgarsvæðinu, Sorpa, hefur urðað úrgang í Álfsnesi frá árinu 1991. Lengi vel var þessi afurð ofgnóttar meðhöndluð sem feimnismál á Íslandi og sorpi fundinn afvikinn staður þar sem það var ýmist brennt eða urðað án úrvinnslu eða mengunarvarna. Ein helsta vísbending samfélagsins um tilurð þessara staða var fuglager í fjarska og megn óþefur sem fyllti vitin í ákveðnum vindáttum. Allir vissu að á ruslahaugunum iðaði allt af lífi.

Úrgangsmál fengu þó ekki heimili í íslenskri stjórnsýslu fyrr en um og eftir 1990. Þær breytingar sem mestu máli skipta voru nýtt umhverfisráðuneyti, stofnun Sorpu bs. og nýjar reglur um mengunarvarnir og spilliefni.

Skilyrði í starfsleyfi ekki uppfylltÍ upphafi voru markmiðin háleit og óumdeilt að Sorpa hefur lyft Grettistaki í meðhöndlun á úrgangi á Íslandi á þeim tveimur áratugum sem hún hefur starfað. En metnaðarfullar áætlanir eiga það til að ganga ekki eftir. Þegar sú tillaga að koma upp urðunarstað í Álfsnesi var kynnt sveitarfélögunum átti aðbúnaður að vera þannig að engin óþægindi hlytust af starfseminni. Fyrirheitin endurspeglast í starfsleyfi SORPU en þar segir að fara skuli „þannig með allan úrgang til endurvinnslu, flutnings, förgunar eða annarrar meðferðar að tryggt sé að hann valdi hvergi ónæði eða óþrifnaði.“

Ljóst er að byggðasamlaginu hefur ekki tekist að uppfylla þetta skilyrði. Á sólríkum sumardegi hafa mest verið taldir átján þúsund fuglar á sveimi yfir urðunarstaðnum. Í ofanálag á lyktin það til að vera svo megn að íbúar treysta sér ekki út úr húsi.

Flokkaður úrgangur – verðmætt hráefniEn hvað er til ráða? Í nýlegum vegvísi Evrópusambandsins að skilvirkri nýtingu auðlinda er áhersla lögð á viðhorfsbreytingu. Aðildarríkjunum er uppálagt að meðhöndla úrgang sem verðmæti og hætta urðun. Sex ESB-ríki eru svo langt komin í þessu ferli að hlutfall urðunar er undir 3% af heildarmagni úrgangs. Til samanburðar urða Íslendingar á bilinu 50-72%.

Fyrirmyndarríkin eiga það sameiginlegt að flokkaður úrgangur er sóttur heim til íbúa. Á Íslandi heyrir það fyrirkomulag til undantekninga og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ekki getað komið sér saman um að taka upp sams konar verklag þrátt fyrir fyrirætlanir þar um.

Lyktarmengun frá Álfsnesi má rekja til lífræns úrgangs í seyruholu og bagga sem í er óflokkað sorp. Ef blandaður úrgangur væri flokkaður og meðhöndlaður sem verðmæti væri það vandamál að minnsta kosti úr sögunni. Um seyruholuna er það að segja að hún á örugglega ekki heima í grennd við byggð þar sem ekki er útlit fyrir að hægt sé að koma alfarið í veg fyrir lyktina.

Starfsleyfi SORPU í Álfsnesi rennur út um næstu áramót. Það er sameiginlegt verkefni eigenda byggðasamlagsins að gera nýjan samning og Umhverfisstofnunar að veita leyfið. Í ljósi þeirra óþæginda sem óþefur frá Álfsnesi veldur íbúum í nærliggjandi byggðum er ákvarðanafælni ekki í boði. Nú er aðgerða þörf.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×