Skoðun

Af hverju látum við ekki útgerðarmennina sjálfa ákveða hæfilegt veiðigjald?

Jónas Guðmundsson skrifar
Útvegsmannafélagið beinir því í auglýsingum til sveitarstjórna að leggjast gegn kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Áskorunin snýst um að verja óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi.

Útvegsmannafélagið ætti fremur að beina þeirri spurningu til sveitarfélaga víða um land, sérstaklega þorpa og bæja á Vestfjörðum, hvort kvótakerfið hafi reynst þéttbýlistöðunum vel eða illa.

Ein vísbending um gott gengi eru flutningar fólks til og frá stöðunum. Gefa þeir tilefni til að halda í óbreytt kerfi um fiskveiðar, grunnatvinnuveginn í þessum dreifðum byggðum landsins? „Þorpið er að þurrkast út“ syngja poppararnir.

Nýjasta slagorðið í kvótaumræðunni hljóðar eitthvað á þá leið að með breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu eigi að „aumingja¬væða landsbyggðina“. Í hvaða skilningi ætli það sé? Er verið að bjóða óverðugu fólki til leiks í veiðum og vinnslu? Eða er átt við að aðstaða fólks verði jöfnuð um of — að arðurinn af fiskveiðunum muni ekki lengur safnast upp hjá fámennum og lokuðum hópi útgerðarmanna, sem hingað til hafi þó altént getað haldið stöðunum uppi, látið hlutina gerast? En ætli það sé reyndin?

Kom það ekki fram að kvótinn á Flateyri hafi farið til húsnæðisbrasks í Berlín? Ætli íbúar þorpsins hafi fyllst vellíðan að vita af því?

Ætli það væri ekki affarasælla að arðurinn af fiskveiðunum gengi til almannaheilla, til fjárfestinga í innviðum samfélaganna um landið, til uppbyggingar samgönguleiða og þjónustu, eða til nýsköpunarstarfs? Til fjárfestingar í fólki og samfélagi þess?

Skilaboð LÍÚ og undirfélaga virðast hins vegar ganga út á að hræða endanlega líftóruna úr fólkinu: þótt gengið hafi misjafnlega þá muni bara ganga enn verr ef hróflað verður við sérhagsmunasniðnu fiskveiðistjórnarkerfi undanfarins aldarfjórðungs.

Hitt er svo annað mál að þeim röddum fjölgar sem finnst ekki nógu langt gengið til breytinga með þeim frumvörpum sem fyrir liggja. Að með þeim séu forréttindi fárra í raun tryggð í marga áratugi, ef ekki til eilífðar. Að þar sé ekki gert ráð fyrir hlutlausum mælikvarða til að meta þau gæði sem einstaklingum er úthlutað. Með markaðsviðskiptum innan hvers svæðis myndu þeir sem stunda eða vilja stunda útgerðina sjálfir ákveða hvað þeir treysta sér til að greiða mikið til samfélagsins fyrir kvótann. Hvers vegna ekki?

Kannski er best að fresta breytingum þar til hægt er að gera þær almennilega, með fullu endurgjaldi.




Skoðun

Sjá meira


×