Skoðun

Innvígð og innmúruð glámskyggni

Torfi H. Tulinius skrifar
Í Silfri Egils þann 6. maí síðastliðinn tók Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, þátt í umræðum um kosningar í nokkrum Evrópuríkjum þar sem öfgahægriflokkar hafa nýlega styrkt sig í sessi. Hann sagði m.a. að ein helsta ástæða fyrir þessari þróun væri sú að stjórnmálamenn hefðu reynst ófærir um að hafa hemil á fjármálakerfinu og þeirri kreppu sem það hefur leitt yfir álfuna. Fjármálastofnanir fengu að græða ótæpilega á bóluárunum en þegar kreppan knúði dyra hefðu vestrænar ríkisstjórnir þjóðnýtt tapið með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag landanna og afkomu íbúanna.

Það er ekki hægt að vera ósammála því. Aftur á móti er ástæða til að andmæla ályktun Styrmis um að þetta sýni að enginn munur sé lengur á hægri stefnu og vinstri í stjórnmálum. Það nægir að líta á árangur sitjandi ríkisstjórnar á Íslandi til að sannfærast um að sá munur er mikill.

Klassísk hægri leið út úr kreppu felst í niðurskurði á velferðarkerfinu og lækkun á sköttum í því skyni að örva hagvöxt. Ef til vill skilar þessi aðferð árangri en hún eykur bæði ójöfnuð og tilfinningu fyrir óréttlæti. Á móti vinnur sú tilfinning gegn samhug og ógnar friðnum í samfélaginu. Jafnaðarmenn skera líka niður, en hlífa velferðarkerfinu og þeim sem minnst mega sín með aðgerðum í skattamálum og bótum sem vinna gegn sárustu afleiðingum kreppunnar. Þannig standa þeir vörð um kaupmátt hinna tekjulægstu. Hinir tekjuhærri draga saman seglin og leggja meira til sameiginlegra sjóða. Það er bæði réttlátt og efnahagslega skynsamlegt. Lágtekjuhóparnir eyða launum sínum innanlands og því fer nánast allt sem gert er í þeirra þágu aftur út í hagkerfið með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á hagvöxt.

Nýbirt skýrsla Þjóðmálastofnunar eftir þá Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson staðfestir að hægri stefna sú sem hér var rekin af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um árabil leiddi til ójöfnuðar.

Hún sannar líka að fjármálahrunið 2008 varð til þess að lífskjör Íslendinga drógust saman um tugi prósentustiga. Fyrst og fremst segir hún okkur að aðferðir jafnaðarmanna séu bæði réttlátari og efnahagslega skynsamlegri en þær sem hægri menn hafa upp á að bjóða, því hún sýnir með óyggjandi hætti að hagur þeirra sem minnst bera úr býtum hefur verið varinn.

Það er því umtalsverður munur á hægri og vinstri, ekki síst sá að hægri stefnan beið eftirminnilegt skipbrot hér á landi. Ef til vill er til of mikils mælst að innmúraður og innvígður talsmaður hennar um árabil geti séð það eða vilji viðurkenna það. Aftur á móti eru aðrir beðnir um að opna augu fyrir því að það skiptir máli hverjir stjórna.




Skoðun

Sjá meira


×