Skoðun

Það stendur mikið til

Eins víst og að lóan kemur er listahátíðin List án landamæra á hverju vori. Listahátíð þessi hefur það að markmiði að brjóta niður múra á milli fólks og benda á tækifærin í samskiptum manna á milli í stað tálmana, margbreytileikann í stað einsleitni.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk er það undirstrikað að fatlað fólk leggur margt til samfélaga sinna. Aðildarríkin og allur almenningur er hvattur til að kynna sér færni og verðleika fatlaðs fólks í samfélagi sínu. Sérstaklega er fjallað um að fatlað fólk fái tækifæri til að þroska og nota sköpunargáfu sína svo og listræna getu, ekki einvörðungu í eigin þágu heldur einnig í því skyni að auðga mannlíf í eigin samfélögum.

Allt þetta hefur List án landamæra 2012 að leiðarljósi. Margir spennandi atburðir verða á hátíðinni í ár. Samsýningar fatlaðra og ófatlaðra listamanna, samspil Retro Stefson og Bjöllukórsins, blint bíó og ljósmyndasýning með sjónlýsingu, söngur Eurosong-farans Töru Þallar og uppistand Elvu Daggar svo eitthvað sé nefnt.

Það er ástæða til að hvetja alla til að kynna sér atburði hátíðarinnar á www.listanlandamaera.blog.is og taka þátt í viðburðum hátíðarinnar en frítt er á alla viðburði.




Skoðun

Sjá meira


×