Skoðun

Nýtt upphaf – virkilega?

Jónas Jónasson skrifar
Um þessar mundir keppast mörg hrunfyrirtækin við að skapa sér nýja fortíð. Bankarnir og tryggingafélögin auglýsa eins og hrunið hafi aldrei átt sér stað. Meira að segja olíufélögin eru „saklaus”. Þetta minnir á bíl sem kemur af réttingaverkstæði eftir að hafa verið keyrður í klessu. En tjónabíll verður alltaf tjónabíll þó hann fái nýtt lakk.

Nýjasta yfirklórið er að finna í auglýsingum Húsasmiðjunnar um nýtt upphaf á íslenskum byggingavörumarkaði. Þar er látið eins og enginn sé gærdagurinn, bara ný hamingja sem blasi við með „sameiningu” við danska fyrirtækið Bygma.

Húsasmiðjan var eitt af þessum fyrirtækjum sem fyrrum eigendur mjólkuðu miskunnarlaust, veðsettu upp í rjáfur og renndu með í stórsvigi kringum skattinn.

Eftir hrunið tók Landsbankinn Húsasmiðjuna yfir og kom henni síðan á framfæri lífeyrisþega í gegnum Framtakssjóðinn. Milljarða króna skuldir voru felldar niður og þeim breytt í hlutafé svo fyrirtækið yrði söluvænlegra. Húsasmiðjan var rekin með miklu tapi en skorti samt ekki fé. Meðan á því lúxuslífi stóð voru stjórnendur fyrirtækisins staðnir að samkeppnislagabrotum. Von er á risavaxinni sekt fyrir athæfið.

Íslenskir neytendur eru síður en svo að upplifa nýtt upphaf á byggingavörumarkaði, ekki frekar en í viðskiptum við banka, tryggingafélög eða olíufélög. Eina nýja upphafið er hjá hinum danska eiganda Húsasmiðjunnar. Bygma eignaðist Húsasmiðjuna með yfirtöku málamyndaskulda og fékk sérkjör sem erlendur fjárfestir. Bygma þarf ekki að bera kostnaðinn af uppbyggingu Húsasmiðjunnar út um allt land síðasta áratuginn. Þann kostnað bera kröfuhafar og eigendur Landsbankans, ásamt eigendum lífeyrissjóðanna (sem sagt við Íslendingar).

Græðlingurinn sem sprettur upp í sjálfumglöðum auglýsingum Húsasmiðjunnar er í raun þyrnóttur kaktus fyrir neytendur jafnt sem eigendur Landsbankans. En ef lygin er endurtekin nógu oft þá fer hún að hljóma sem sannleikur.




Skoðun

Sjá meira


×