Skoðun

Mennska

Guðrún Hannesdóttir skrifar
Maður einn vinnur að því árum saman að koma sér upp hugmyndafræði. Hann vinnur að því að sjá sér út óvini og byggja upp í huga sér mynd af óþverralegu og háskalegu innræti þeirra. Vinnur að því árum saman að smíða áætlun um hvernig best sé að koma þeim fyrir kattarnef. Vinnur að því að útvega sér þjálfun, nýjustu tól og tæki til að árangurinn verði sem bestur. Metur síðan á eigin forsendum, með eigin upphöfnu sjálfsmynd að leiðarljósi, hvenær rétta stundin sé runnin upp og lætur til skarar skríða.

Og einn daginn blasa afleiðingarnar við allra augum og vekja hrylling og hryggð um heimsbyggðina.

Ég er hér að tala um hina hörmulegu atburði sem urðu í Útey síðastliðið sumar, fjöldamorðin í Útey.

Málið er talið einstakt og grafalvarlegt og einn mjög mikilvægur þáttur þess virðist brýn þörf á að úrskurða hvort morðinginn sé ósakhæfur eða ekki. Hvort hann sé haldinn ofsóknargeðklofa eða sakhæfur á við hvern venjulegan mann, mig og þig.

Já – menn líta á málið sem einstakt og grafalvarlegt eins og stundum vill verða. Skýringin á því er auðvitað sú hvað við sjáum það skýrt og afmarkað í umgjörð sinni. Vettvangurinn er lítil falleg eyja í friðsömu ríki, fórnarlömbin eru flest ungmenni sem aldrei hafa gert flugu mein, og allir skynja að með þeim hverfa draumar og vonir eins og dögg fyrir sólu.

Önnur ódæði á margfalt stærri skala tala ekki svona skýrt og skelfilega til okkar þó eðli þeirra sé hið sama. Ég er að tala um árásir og stríð hervelda heimsins og bandalaga þeirra. Enda er sú mynd margbrotin og ekkert auðveldara en að villa mönnum sýn og fela heildarmyndina í moldviðri áróðurs, lyga og brotakenndra, misvísandi frétta sem er þyrlað upp þegar nauðsyn er talin á að fara í stríð. Það er létt verk að vekja fólki ótta við yfirvofandi ógn, en skjótast svo inn í skuggaveröld hinnar lífseigu, kaldhömruðu realpólitíkur og telja fólki trú um að það sé í góðu lagi að kasta siðferðilegum rökum út í ystu myrkur (tímabundið) og láta sig örlög þeirra sem lenda í skotlínunni engu skipta til að ná tilætluðum árangri.

Það er hafist handa á kunnuglegan hátt; búin er til skýr mynd af óvininum, gerð áætlun um hvernig best megi koma honum fyrir kattarnef, útveguð nýjustu og bestu tæki og tól og metið síðan á forsendum eigin ágætis og óskeikulleika hvenær skuli láta til skarar skríða.

En nú bregður svo við að málið er ekki lengur skýrt einstakt og grafalvarlegt. Það er enginn sem stillir fókusinn og margir eru þeir sem sjá sér engan hag í því. Enginn er í sjónmáli til að telja líkin af nákvæmni, telja og tíunda öll örkumlin og sálarmorðin. Og enginn tiltækur eða kallaður til að skera úr um sakhæfi eða skort á sakhæfi árásaraðila í gjörningaveðrinu sem umlykur slíka atburði.

Það er líkast til mörgum enn minnisstætt á hvaða hátt Norðmenn brugðust við óhæfuverkunum á Útey. Í stað þess að fallast hendur í örvæntingu eða skríða í skjól samsæriskenninga og haturs, leituðu þeir að innri styrk þjóðarinnar með ótrúlega eftirminnilegum og fallegum hætti, kölluðu eftir siðferðisþreki fjöldans og fundu það þrek.

Ýmis teikn eru nú á lofti, teikn sem með bjartsýni má túlka sem vaxandi styrk alþýðu manna og merki þess að „vor“ sé í vændum á alþjóðavettvangi. Við höfum séð margar arabaþjóðir losna úr viðjum óttans og segja vopnlausar ofureflinu stríð á hendur í von um betra og réttlátara líf. Við höfum séð ungt fólk á Vesturlöndum losna úr viðjum aðgerðaleysis og sljóleika og heimta að fá að taka þátt í réttlátri skiptingu heimsins gæða. Við höfum séð marga opna augun fyrir því virðingarleysi sem viðgengist hefur í umgengni okkar við náttúruna og marga opna augun fyrir þörfinni á að safna liði til að vinna að betri heimi öllum til handa áður en það er orðið of seint.

En við höfum of lengi vanrækt að stíga skrefið til fulls, skilgreina og segja útlæg úr mannlegu samfélagi þau öfl sem sóa, myrða og eyðileggja í tilgangsleysi og byrja svo upp á nýtt á næstu styrjöld, eyðingu og sóun eins og ekkert hafi í skorist.

Það geta engir nema við sjálf ákveðið hvort slíkt athæfi er saknæmt eða ekki. Og það er komið að því.




Skoðun

Sjá meira


×