Skoðun

Útilegukortið

Arnar Barðdal skrifar
Steinar Berg, ferðaþjónustubóndi að Fossatúni, ritaði grein í Fréttablaðið þann 12. apríl sl. undir yfirskriftinni niðurgreidd ferðaþjónusta. Grein Steinars er einhvers konar ákall til stéttarfélaga um að hætta kaupum á Útilegukortinu til sinna félagsmanna. Í grein Steinars kemur fram misskilningur sem við teljum nauðsynlegt að leiðrétta.

Steinar fullyrðir að á fimmta tug tjaldsvæða séu á kortinu og flest þeirra á vegum sveitarfélaga sem niðurgreiða reksturinn. Í Útilegukortinu eru 44 tjaldsvæði sem korthafar hafa nær ótakmarkaðan aðgang, þar af eru 67% tjaldsvæðanna í rekstri einkaaðila rétt eins og Steinars. Algengt er að sveitarfélög bjóði út rekstur tjaldsvæða, og þó svo að tjaldsvæði beri heiti sveitarfélagsins þýðir það ekki að sveitarfélagið sjái um rekstur þess. Það má einnig benda á að í máli Steinars má skilja að tjaldsvæði sem rekin eru af sveitarfélögum séu ekki uppbyggð af sama metnaði og helstu tjaldsvæði landsins, sem byggð hafa verið upp undanfarin ár, eins og þau tjaldsvæði sem eru í Útilegukortinu séu ekki ein af helstu tjaldsvæðum landsins.

Útilegukortið hefur á að skipa fjölbreyttum tjaldsvæðum og eru flest þeirra vel samkeppnisfær við annars mjög glæsilegt tjaldsvæði sem Steinar hefur byggt upp í Fossatúni.

Steinar fullyrðir að margir kaupendur Útilegukortsins séu erlendir ferðaskipuleggjendur sem koma með marga hópa húsbílafólks og að þessir aðilar kaupi t.d. 20 kort sem þeir nota fyrir hópinn. Að loknu ferðalagi séu sömu kortin notuð aftur fyrir næsta hóp. Þannig séu kortin misnotuð aftur og aftur. Við höfum því miður engin staðfest dæmi um slíka misnotkun sem Steinar bendir á, en viljum taka fram að hvert kort er merkt með nafni eiganda kortsins, sem eigandi á að framvísa með skilríkjum við komu á tjaldsvæði. Með þessu á að vera komið í veg fyrir slíka misnotkun. Ef einhverjum tekst að misnota kortið þá liggur tjónið hjá Útilegukortinu en ekki Steinari Berg.

Síðan Útilegukortið kom fyrst út árið 2007 hafa stéttarfélög í auknum mæli boðið kortið til félagsmanna sinna rétt eins og stéttarfélög niðurgreiða ferðakostnað og leigja út sumarbústaði til félagsmanna sinna. Leiga sumarbústaða er í þessu sambandi einnig niðurgreidd af stéttarfélögum. Það er því fullkomlega eðlilegt að stéttarfélög komi til móts við þann stóra hóp Íslendinga sem ferðast vill innanlands og gista á tjaldsvæðum.

Að lokum viljum við benda á að Útilegukortið gefur fleirum kost á að ferðast á ódýran og hagkvæman hátt um landið og er það markmið Útilegukortsins að bæta ávallt þjónustuna við viðskiptavini sína. Vinsældir Útilegukortsins hafa verið miklar sem endurspeglast í auknum fjölda tjaldsvæða sem óskar eftir að vera þátttakendur í Útilegukortinu og komast færri að en vilja. Við viljum einnig nota tækifærið og bjóða Steinari að koma til viðræðna við okkur um að vera með þeirri stóru ferðafjölskyldu sem Útilegukortið er.




Skoðun

Sjá meira


×